„Um leið og það kemur smá klaki niðri í bæ þá heldur fólk að það sé snjólaust í fjallinu. Svo er ekki og við verðum með opið í dag,“ segir Guðmundur Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli á Akureyri.
Fyrsta opnun vetrarins var í Hlíðarfjalli um liðna helgi og nýttu sér margir þær frábæru aðstæður sem þá buðust. Í vikubyrjun hlýnaði allhressilega í veðri fyrir norðan og því hafa margir talið að skíðaævintýrið sé úti í bili. Svo er ekki að sögn Guðmundar.
„Það fór allt á kaf hér á Akureyri í síðustu viku og þá héldu allir að það væri líka allt á kafi í Hlíðarfjalli. Staðreyndin er sú að það þarf aðeins lengri tíma til að fá nægan snjó í brekkurnar. Þess vegna erum við með snjóframleiðslu, til að tryggja og styrkja skíðabrekkurnar. Þó það hlýni í einn eða tvo daga er ekki þar með sagt að allur snjór fari. En ef svona hlýindi væru í viku, ég tala nú ekki um ef það væri líka vindasamt, þá þyrftum við að hafa áhyggjur.“
Opið hefur verið á skíðasvæðum Dalvíkur og Ólafsfjarðar síðustu daga. Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli, segir í Morgunblaðinu í dag að veðurfar hafi ekki verið hagstætt að undanförnu og hann telur ólíklegt að þar verði skíðað fyrir jól. „En ég vonast enn til þess að við náum að opna milli jóla og nýárs.“