Litlar sem engar líkur eru taldar á að takast muni að ljúka gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum fyrir áramót, þegar gildandi samningar renna út. Mikil vinna og fundarhöld eru þó í gangi milli viðsemjenda og í vinnuhópum og undirnefndum um fjölmörg mál.
Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar segja að enn sjái þó ekki til lands í viðræðunum. Bæði verslunarmenn og formenn Starfsgreinasambandsins ætla að fara yfir stöðu samningamálanna á fundum í lok vikunnar og ræða næstu skref, að því er fram kemur í fréttaskýringu i Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt heimildum blaðsins er bráðabirgðatillagna starfhóps um skattabreytingar vænst næstkomandi miðvikudag.
Þessa dagana er verið að leggja kostnaðarmat á gögn sem fengust frá Hagstofunni um vinnutíma, yfirvinnustundir o.fl. samkvæmt upplýsingum Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA.