Uppsagnir starfsfólks í tengslum við WOW air eru þær fjölmennustu sem hafa komið á borð Vinnumálastofnunar í tæp tíu ár, segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Greint var frá því í morgun að WOW hefði sagt upp 111 fastráðnum starfsmönnum og ná uppsagnirnar þvert á fyrirtækið. 237 starfsmönnum Airport Associates, þjónustuaðila WOW air á Keflavíkurflugvelli, var sagt upp í lok nóvember og á annan tug var sagt upp hjá WOW air um svipað leyti þegar ljóst var að ekki yrði af sameiningu félagsins og Icelandair.
Gissur segir að hjá Vinnumálastofnun verði farið í að undirbúa möguleikann á að þeir, sem hefur verið sagt upp, nýti sér rétt til atvinnuleysisbóta og ráðgjafar í tengslum við atvinnumissi. Töluverð vinna sé við að skipuleggja slíkt þegar um svo mikinn fjölda fólks er að ræða.