Vill snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um að efla …
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti „um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags og að unnin verði aðgerðaráætlun á því sviði í víðtæku samráði“.

Þingsályktunin er í 22 liðum sem snerta flestar hliðar þjóðlífsins, m.a. tíu aðgerðir sem snerta menntamál, fimm sem tengjast menningu, tvær sem snerta tækniþróun, aðgengi og nýsköpun og fjórar sem tengjast stefnumótun, stjórnsýslu og atvinnulífi.

„Fyrsta aðgerðin, sem rammar hinar inn, er vitundarvakning um mikilvægi íslenskrar tungu. Til þess að aðrar aðgerðir skili sem bestum árangri viljum við vekja sem flesta til umhugsunar um mikilvægi íslenskrar tungu, fjölbreytileika hennar, gildi og sérstöðu,“ er haft eftir menntamálaráðherra í frétt á vef Stjórnarráðsins, en tillagan fer nú til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. 

Leita á eftir víðtæku samstarfi um vitundarvakninguna við stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök og kalla eftir þeirra hugmyndum og aðgerðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert