Greiddar hafa verið sanngirnisbætur til hátt í 1.200 einstaklinga og nema bótagreiðslur um þremur milljörðum króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu vegna lokaskýrslu um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum fyrir börn. Ekki liggur fyrir hve margir dvöldu á þessum stofnunum en ætla má að það hafi verið um 5.000 einstaklingar/börn.
„Ljóst er að mjög margir urðu fyrir verulegu tjóni af dvöl á vistheimili vegna þess harðræðis og ofbeldis sem þeir máttu sæta,“ segir í skýrslunni.
Fólkið varð fyrir tjóni að hluta til vegna vanrækslu og lítils eftirlits opinberra aðila en einnig vegna aðstæðnanna sem voru uppi á þessum tíma og „stofnanalegu viðmóti sem mætti þeim sem þar dvöldu“.
Í skýrslunni segir einnig: „Enda virtist oft skorta að börnum væri veitt sú öryggistilfinning og hlýja sem er þeim nauðsynleg. Í skýrslum vistheimilanefndar kemur fram að eftirliti ríkisins með starfsemi margra þeirra heimila sem um ræðir var mjög ábótavant í mörgum tilvikum. Þá virðist sem ákvarðanir um rekstur sumra heimilanna hafi verið teknar að lítt ígrunduðu máli og jafnvel í trássi við ráðleggingar sérfræðinga.“
Sanngirnisbætur eru byggðar á rannsókn vistheimilanefndar á árunum 2007-2017 á starfsemi vistheimila og stofnana þar sem börn voru vistuð á síðustu öld. Um er að ræða 11 heimili og stofnanir og fjölmargar undirstofnanir. Nefndin hefur skilað fimm skýrslum um niðurstöðurnar, að því er segir í tilkynningunni.
Alls bárust 1.190 umsóknir um sanngirnibætur vegna þeirra ofantaldra stofnana og 41 vegna heimila og stofnana sem ekki falla undir lög nr. 26/2007, eða samtals 1.231 umsókn. Öllum umsóknum vegna annarra heimila og stofnana en féllu undir gildissvið laganna var hafnað. Bætur voru greiddar í 1.162 tilvikum á grundvelli innkallana.
Tæplega 30 umsóknum var hafnað af ýmsum orsökum, aðallega vegna þess að ekki var hægt að staðreyna dvöl viðkomandi á heimilinu, eða dvalartími var svo skammur að greiðsla bóta þótti ekki koma til álita.
Fram kemur í tilkynningunni að nokkur gagnrýni hafi komið fram á að börn sem dvöldu á sveitaheimilum á síðustu öld hafi í mörgum tilvikum mátt þola illa meðferð sem hafi ekki verið bætt. „Könnun á aðstæðum þeirra getur ekki talist annað en næsta ófær, enda ekki um að ræða stofnanir heldur einkaheimili sem njóta friðhelgi, auk þess sem upplýsingar eru af skornum skammti.“
Einnig hefur komið fram gagnrýni frá samtökunum Þroskahjálp vegna þess að aðstæður fatlaðra sem hafi dvalið á stofnunum hafi ekki verið kannaðar til hlítar, nema á Kópavogshæli. „Þess ber að geta að lög um sanngirnisbætur ná aðeins til þeirra sem dvöldu á stofnunum sem börn og bætur til fullorðinna einstaklinga sem orðið hafa fyrir misgjörðum á stofnunum verða ekki greiddar á grundvelli þeirra. Standi vilji stjórnvalda til að kanna heildstætt aðbúnað fatlaðra á stofnunum verður að fara aðra leið sem bíður ákvörðunar síðari tíma.“
Í skýrslunni kemur fram að líta verði á að greiðslu sanngirnisbóta vegna vistheimila og stofnana sem vistuðu börn sé lokið og að það sé löggjafans að ákveða hvort almenn lög um sanngirnisbætur verða tekin upp.
„Lög um sanngirnisbætur voru búin ýmsum annmörkum við úrlausn málsins en tilgangi þeirra hefur verið mætt og þau verða varla notuð aftur. Ef vilji er, eða verður í framtíðinni til þess að koma að þessum málum með öðrum hætti, eða leggja í þá vegferð að taka upp almenn lög um sanngirnisbætur með einhverjum hætti, líkt og er í Noregi, þá verður það ákvörðun löggjafans.“
Blaðamannafundur verður haldinn í dómsmálaráðuneytinu klukkan 14.30 í dag vegna skýrslunnar.
Dómsmálaráðuneytið hefur haft umsjón með framkvæmd á bótagreiðslum og var Guðrún Ögmundsdóttir ráðin í sérstakt starf tengiliðar með vistheimilum.
Í tilkynningunni kemur fram að eftir að Breiðavíkurmálið komst í hámæli árið 2007 hafi viðamikið ferli hafist þar sem farið var yfir vistun barna á vist- og meðferðarheimilum á síðustu öld. Rannsóknir á starfsemi þessarar 11 stofnuna og margra undirstofnana gáfu sterkar vísbendingar um að börn sem þar dvöldu hefðu í mörgum tilvikum mátt sæta vanvirðandi og illri meðferð eða ofbeldi.
„Greiðsla skaðabóta var þó miklum vandkvæðum bundin þar sem bótakröfur voru allar fyrndar og sönnun tjóns afar flókin. Farin var sú leið að setja sérstök lög um sanngirnisbætur, eða greiðslu bóta utan almennrar skyldu. Þau tóku gildi 2010 og hófst verkefnið í októbermánuði það ár. Innköllun á kröfum fór fram eftir því sem starfi vistheimilanefndar miðaði áfram. Með lögunum var málsmeðferð einfölduð til þess að hraða mætti afgreiðslu málanna. Árið 2015 var bætt við lögin bráðabirgðaákvæði sem gerði fyrrum nemendum Landakotsskóla var gert mögulegt að sækja um sanngirnisbætur.“