Þjófnaður úr verslunum, öskuillur ökumaður, innbrot, bruni í bíl, ölvunarakstur og sjúkrahúsakstur og árásarboð frá stofnun í miðborginni eru aðeins nokkur þeirra verkefna sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að sinna frá því að löggutíst, bein útsending þriggja lögregluumdæma á landinu, hófst klukkan fjögur í dag.
„Ég myndi segja að þetta sé frekar venjubundið,“ segir Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um verkefnin þetta þetta föstudagskvöldið. „Þetta kemur oftast í kippum. Það er eðli starfsins.“
Tístmaraþon lögreglunnar á Twitter fer fram undir myllumerkinu #löggutíst á Twitter og gefst almenningi þar kleift að fylgjast með þeim verkefnum sem koma inn á borð lögreglunnar til kl. 4 í nótt.
Tilkynnt var um bifreið sem ók á öfugum vegarhelmingi á Bústaðavegi á áttunda tímanum í kvöld og keyrði bílstjórinn niður skilti er hann reyndi að komast yfir á réttan vegarhelming
Þá var lögreglan send í verslunarmiðstöð á sjötta tímanum, en þar hafði bíl verið ekið á gangandi vegfaranda. „Ökumaðurinn trylltur á vettvangi og sagður hafa ráðist á þann sem hann ók á og ásakað fyrir að hafa verið að þvælast fyrir,“ sagði í tísti lögreglu um atvikið. Bílstjórinn reyndist hins vegar vera farin af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Ekki fylgdi hins vegar sögunni hvort að meiðsl þess sem ekið var á hefðu verið alvarleg.
Spurður hvort síðast nefnda útkallið sé hefðbundið segir Þórir svo kannski ekki vera. „Þetta er samt alveg eitthvað sem við höfum séð áður, en þetta er ekki daglegt brauð.“
Um árásarboð frá stofnun í miðborginni, sem reyndist svo vera rafmagnsleysi segir hann gaman að leyfa fólki að sjá hvað verkefni lögreglunnar eru margvísleg. „Flest þeirra fara líka blessunarlega vel, annars væri þetta ansi dapurt,“ bætir hann við
„Þess vegna held ég að það sé líka svo mikilvægt fyrir fólk að átta sig á hvað er á bak við eitt svona tíst. Það eru tveir lögreglufulltrúar, í lögreglubíl, sem þurfa að keyra eitthvert, fara, skoða og tékka að allt sé í lagi. Við erum kannski að tala um einfalt útkall, en á bak við það eru samt líka eknir kílómetrar og mannaflastundir,“ segir Þórir. „Við erum á fullu.“
Í aðdraganda jóla má alltaf gera ráð fyrir fjölgun verkefna hjá lögreglu og svo er einnig nú. Síðustu helgi var rosa álag hjá okkur. Ég held að við höfum fyllt alla klefa þá.“ Mikið er um fólk á ferðinni í jólagjafakaupum og í vikunni voru svo síðustu prófin hjá háskólanemum. Það því má búast við að einhverjir stúdentar vilji sletta úr klaufunum, til viðbótar við þann fjölda sem er á jólahlaðborðum og öðrum skemmtunum. „Langflestir skemmta sér fallega, en svo er alltaf einhverjir sem ganga of langt,“ segir Þórir og kveður heilt yfir vera mikið að gera. „Það er bara svona snúningur á öllu.“
Hægt er að fylgjast með tístum lögregluumdæmanna þriggja á forsíðu mbl.is, á Twitter-síðum lögregluumdæmanna @logreglan, @sudurnespolice og @logreglanNE, eða undir myllumerkinu #löggutíst.