Hver erlendur ferðamaður í Reykjavík eyðir nærri fimm sinnum hærri upphæð á hverjum sólarhring en ferðamaður á Hvammstanga. Þetta er meðal niðurstaðna sem kynntar voru í dag úr ferðavenjukönnun sem gerð var á átta stöðum á landinu síðastliðið sumar. Það var Rannsóknarmiðstöð ferðamála sem framkvæmdi könnunina, en niðurstöðurnar voru kynntar á fundi Ferðamálastofu í dag.
Helstu niðurstöður sýna í stuttu máli að ferðavenjur og útgjöld erlendra gesta voru talsvert ólík eftir stöðum og lá helsti munurinn í ástæðum heimsóknar, dvalartíma og neyslumynstri gesta. Gestir staðanna voru almennt ánægðir með dvölina og víða komu fram jákvæðar athugasemdir um náttúrufegurð og þjónustu en þó var einnig greinileg óánægja með hátt verðlag.
Meðalútgjöld á sólarhring í Reykjavík voru alls 38 þúsund krónur, en í höfuðborginni voru gisting, veitingar og afþreying veigamestu útgjaldaliðirnir. Vægi útgjaldaliða var hins vegar nokkuð ólíkt eftir stöðunum og til að mynda var hæsti útgjaldaliðurinn á Húsavík afþreying þar sem vægi hvalaskoðunar er mikið. Á Húsavík voru útgjöldin um 18 þúsund krónur á sólarhring. Lægst voru þau á Hvammstanga, eða um 8 þúsund krónur.
Ferðamálastofa fól Rannsóknamiðstöð ferðamála að framkvæma könnunina sumarið 2018. Könnunin náði til átta áfangastaða: Reykjavíkur, Reykjanesbæjar, Víkur, Stykkishólms, Ísafjarðar, Hvammstanga, Húsavíkur og Egilsstaða. Framkvæmdin var í höndum Lilju B. Rögnvaldsdóttur verkefnastjóra en hún hefur staðið að gerð sambærilegra kannana frá árinu 2013.
Í könnuninni var lögð áhersla á greiningu ýmissa einkennandi þátta ferðamanna á rannsóknarsvæðunum s.s. búsetulandi, ferðamáta, gistimáta og dvalarlengd auk þess sem ástæða heimsóknar og útgjaldamynstur þeirra var skoðað.