Lögreglan í beinni frá 16 til 04

Undanfarin ár hefur lögreglan staðið að tístmaraþoni lögreglunnar undir myllumerkinu …
Undanfarin ár hefur lögreglan staðið að tístmaraþoni lögreglunnar undir myllumerkinu #löggutíst. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tilgangurinn með löggutístinu er að gefa fólki innsýn í störf lögreglu og fá tilfinningu fyrir því hvað við erum að gera, hvernig lögreglan virkar og hvað verkefni okkar eru margvísleg,“ segir Þórir Ingvarsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Undanfarin ár hefur lögreglan staðið að tístmaraþoni lögreglunnar undir myllumerkinu #löggutíst á Twitter, þar sem almenningur fær að fylgjast með öllum verkefnum sem koma inn á borð lögreglunnar. Tístmaraþonið hefst síðdegis í dag, nánar til tekið kl. 16 og stendur til kl. 4 í nótt.

Samfélagsmiðlar auki aðgang fólks að lögreglu

„Það er mjög skemmtilegt að nú er þriðja eða fjórða árið í röð sem landsbyggðin tekur þátt í þessu með okkur, það eru tvö lögreglulið að þessu sinni, lögreglan á Norðurlandi eystra og lögreglan á Suðurnesjum,“ útskýrir Þórir. „Við tístum hver á sínum reikningi en notum myllumerkið til að tengja færslurnar.“

Þórir er samfélagsmiðlastjóri LRH.
Þórir er samfélagsmiðlastjóri LRH. Ljósmynd/Júlíus Sigurjónsson

Þórir segir tilgang þess að lögreglan er á samfélagsmiðlum að auka samskipti, auka samtal og aðgang fólks að lögreglunni. „Þetta er einn liður í því.“

„Svo er Twitter auðvitað lifandi og skemmtilegur miðill. Það eru alltaf einhverjir sem fara að tísta undir myllumerkinu og jafnvel koma með upplogin og ímynduð verkefni, verkefni sem þeim finnst að lögreglan ætti að sinna og svo framvegis.“

Viðbrögð almennings segir Þórir alla jafna mjög jákvæð. „Það er oft mikið af verkefnum hjá okkur og það kemur fólki oft á óvart hvað er mikið að gera. Þetta er ágætisgluggi inn í okkar veruleika.“

Trúnaður og skynsemi í forgrunni

Um tímasetninguna segir Þórir miðjan desember henta vel. „Þetta er helgi þar sem er oft mikið um að vera hjá lögreglu, prófum að ljúka og gáskafullt ungviðið þeysist á skemmtistaðina. En eðli okkar starfa er þannig að við vitum aldrei hvernig vaktin verður. Við gætum orðið algerlega á haus en vaktin gæti líka orðið róleg. Við höfum enga hugmynd um það en tökum því sem að höndum ber.“

Þórir segir lögregluna að sjálfsögðu leggja áherslu á að gæta trúnaðar í verkefnum þrátt fyrir að sagt sé frá þeim á samfélagsmiðlum. Því sé yfirleitt ekki sagt frá verkefnum í rauntíma. „Það er ekki endilega hægt að sjá hvaða mál er verið að eiga við eða hvar nákvæmlega. Við gerum þetta skynsamlega. Þetta er ætlað til að gefa fólki smjörþefinn af þessu.

Hægt verður að fylgjast með tístum lögregluumdæmanna þriggja á forsíðu mbl.is, á Twitter-síðum lögregluumdæmanna @logreglan, @sudurnespolice og @logreglanNE, eða undir myllumerkinu #löggutíst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert