Lögregluþjónar landsins höfðu í ýmsu að snúast í nótt, en lögregluembætti landsins greindu frá störfum sínum í rauntíma í árlegu tístmaraþoni lögreglunnar á Twitter undir myllumerkinu #löggutíst. Mörg útkallanna voru vegna ölvunar og óspekta.
Ein vinsælasta færsla lögreglunnar á Twitter í nótt var heilráð sem lögreglunnar um að það að ráðast á dyraverði sé slæm hugmynd en að ráðast á dyraverði fyrir framan lögreglumenn sé enn verri hugmynd. Með heilráðinu birti lögregla mynd af a.m.k. sex lögregluþjónum sem höfðu handsamað meintan árásarmann fyrir framan veitingahús við Austurstæri í miðborg Reykjavíkur.
Lögregla var kölluð til í verslun á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðili hafði verið staðinn að verki við að raða kjöti í bakpoka sinn í verslun. Málið var afgreitt á staðnum og þjófurinn fékk að halda orkudrykknum sem hann hafði greitt fyrir.
Þá sótti lögregla ungmenni í íbúð í fjölbýlishúsi og þeir voru sóttir af foreldrum eftir að lögregla fór í útkall vegna kvartana undan hasslyktar í íbúðinni. Þá fór lögregla í útkall þar sem Barnavernd hafði óskað eftir aðstoð lögreglu. Segir í tísti lögreglunnar að útkallið hafi verið erfitt þar sem heimilismenn hefðu ekki sýnt af sér sína bestu hlið. Faðirinn á heimilinu var handtekinn eftir að hann neitaði að yfirgefa heimilið og var undir áhrifum.
Einnig hringdi í Neyðarlínu maður sem óskaði eftir því að vera sóttur eftir útistöður við konu sína. Í tísti lögreglu segir að konan hefði hringt skömmu síðar til að afboða lögreglu en lögregla fór samt sem áður á vettvang til að ganga úr skugga að allt væri með felldu.
Af öðrum atvikum og útköllum lögreglu í nótt má nefna bílainnbrot, grunnsamlegar mannaferðir, símtal vistmanns á Kleppi og erfiðan farþega í leigubil en lesa má nánar um störf lögreglu á Twitter.