Gluggi inn í störf lögreglu

Þórir Ingvarsson, samfélagsmiðlastjóri LRH.
Þórir Ingvarsson, samfélagsmiðlastjóri LRH. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Við höfum náð á síðustu árum og áratugum að einfalda þau verkefni sem við sinnum, en þó eru þau verkefni sem við sinnum gríðarlega fjölþætt og ég held að það sé áhugavert fyrir fólk að sjá hvað starf lögreglunnar er fjölþætt,“ segir Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þórir er samskiptamiðlastjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og stóð hann í ströngu í gær og í nótt þegar lögreglan sýndi frá störfum sínum undir myllumerkinu #löggutíst á Twitter. Löggutístið hefur verið árviss viðburður hjá lögreglu síðan 2013.

„Þá var þetta bara tilraun og hafði aldrei verið gert. Það gekk vel og viðbrögðin voru góð, svo við ákváðum að gera þetta árið eftir og síðan árlega eftir það,“ segir Þórir. Auk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tók lögregla á Norðurlandi eystra og Suðurnesjum þátt í löggutístinu og voru höfuðstöðvar löggutístsins hjá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. Segir Þórir að því hafi fjórar stofnanir komið að þessum viðburði í gær.

„Frá okkar bæjardyrum séð tókst nóttin vel. Eðli málsins samkvæmt viljum við minni viðskipti en það er bara þannig að það er mikið að gera þessar helgar. Núna er mikið af fólki að koma úr prófum og út frá því er mikið skemmtanalíf. Þegar skemmtanalíf er mikið er mikið að gera hjá okkur,“ segir Þórir. „En þetta var stóráfallalaust og viðbrögð almennings við löggutístinu eru alltaf rosalega jákvæð og skemmtileg. Fólki finnst gaman að sjá aðeins inn til okkar og taka þátt, og það er ánægjulegt fyrir okkur.

Meðal verkefna lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í gær má nefna eld í heimahúsum, eftirlit með ástandi ökumanna, aðstoð við stofnanir, að taka á ýmsu því sem aflaga fór í skemmtanalífi og allt þar á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert