Sýndarveruleikasýning til 30 ára

Sýningin verður við Aðalgötu á Sauðárkróki.
Sýningin verður við Aðalgötu á Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi

Sveitarfélag Skagafjarðar hefur samþykkt samstarfssamning um uppbyggingu sýndarveruleikasýningar við Aðalgötu 21 á Sauðárkróki. Um er að ræða stærstu sögutengdu sýndarveruleikasýningu á Norðurlöndum, að því er kemur fram í fundargerð, en viðfangsefnið verður Sturlungaöld.

Fram kemur að samningurinn eigi sér langa sögu innan sveitarfélagsins og að ráðist hafi verið í verkefnið til að efla ferðamennsku í Skagafirði og styðja við atvinnuuppbyggingu og aukna fjölbreytni starfa. Samningurinn var samþykktur með fimm atkvæðum gegn fjórum.

Á sér ekki fordæmi á Íslandi

„Að fá hingað nýsköpunarfyrirtæki og fjárfesta sem bjóða upp á sýningu sem ekki á sér fordæmi á Íslandi og verður stærsta sögutengda sýndarveruleikasýning á Norðurlöndunum, sýning sem setur Skagafjörð enn betur á kortið en nú er og ef áætlanir ganga eftir mun leiða til fjölgunar ferðamanna á svæðinu um tugi þúsunda á komandi árum. Við þurfum á því að halda,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður Byggðaráðs Skagafjarðar, í bókun sinni.

Hann bætir við að kynningarstarf sé þegar hafið vegna verkefnisins og það hafi þegar fengið mjög jákvæð viðbrögð, meðal annars hjá þeim sem reka skemmtiferðaskip.

195 milljóna króna hagnaður

Ráðgjafafyrirtækið Deloiette var fengið til að gera fjárhagslega úttekt á áhrifum uppsetningar á sýningunni. Það telur að sveitarfélagið muni hagnast um 195 milljónir króna af verkefninu á samningstímanum, sem er 30 ár. Gert er ráð fyrir að 10 manns muni starfa hjá fyrirtækinu til að byrja með og þeim verði fjölgað þegar fram líða stundir. Sveitarfélagið fær með framlagi sínu 10% eignarhlut í Sýndarveruleika ehf., að því er segir í bókuninni.

„Er það mat meirihluta sveitarstjórnar að mikil tækifæri felist í þessu verkefni fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og að það muni verða til þess að koma Skagafirði enn betur á kortið og fjölga ferðamönnum í Skagafirði verulega með öllum þeim fjölmörgu afleiddu störfum, verkefnum og tækifærum sem því fylgir. Úttektir sýna að verkefnið er hagfellt fyrir sveitarsjóð, störfum mun fjölga og nýir fjárfestar skjóta föstum rótum í samfélaginu.“

Íbúakosningu hafnað

Minnihlutinn í sveitarfélaginu lagði fram bókun um að fram færi íbúakosninga vegna sýningarinnar en því var hafnað. „Ljóst er að langtíma skuldbindingar, ívilnanir og fjárútlát vegna fyrirtækisins Sýndarveruleiki ehf. munu fela í sér aukin rekstrargjöld og skerða framkvæmdagetu sveitarfélagsins næstu áratugi. Enn fremur er ítrekað mikilvægi þess að íbúar geti kynnt sér efni samningsins er varða skuldbindingar og ívilnanir sveitarfélagsins vegna hans,“ segir í bókun Álfhildar Leifsdóttur hjá VG og óháðum í Skagafirði.

Þar kemur einnig fram flokkurinn hafi sett fyrirvara um álit Deloiette um ávinning sveitarfélagsins af verkefninu „sem virðist mjög óverulegur í ljósi þess hve mikið sveitarfélagið hyggst leggja í verkefnið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert