Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir mikilvægt að allir njóti góðs af uppsveiflu í þjóðfélaginu. Hann var gestur Páls Magnússonar í útvarpsþættinum Þingvöllum í morgun.
„Það er ekki markmið okkar að halda bótum almannatrygginga í algjöru lágmarki til að vinna niður hlutfall ríkisútgjalda af landsframleiðslu. Við erum í þessu fyrir heildina, til þess að geta stutt við þá sem mest þurfa á að halda, og leggjum því mikið upp úr því að hér séu efnahagsleg umsvif, hagvöxtur og drift í atvinnulífinu, svo við getum gert betur við þetta fólk. Kaupmáttur bóta ellilífeyrisþega hefur stórvaxið, umfram það sem hefur gerst hjá öðrum þjóðfélagshópum,“ segir Bjarni.
Sagði Bjarni að í ár sé verið að greiða aukalega 70 til 80 milljarða króna á ári miðað við fyrir átta árum út úr almannatryggingakerfinu til lífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. „Ef við horfum aftur í tímann hefur okkur tekist að styðja miklu betur við þetta fólk. Það kalla ég árangur í stjórn landsmála. Við erum að láta ávinninginn af efnahagsuppsveiflunni rata þangað sem við sögðumst alltaf ætla að láta hann rata. Að allir myndu koma með á flóðinu. Sjá til þess að það væru ekki fáir útvaldir sem myndu skara fram úr. Það kostar, það kostar að gera vel við marga,“ sagði Bjarni en í þættinum fóru þeir Páll um víðan völl í umræðum um Sjálfstæðisflokkinn, ríkisstjórnina og landslagið í stjórnmálum almennt.
Spurði Páll Bjarna út í gagnrýni sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og forysta hans hefur fengið á sig frá flokksmönnum um að oft og tíðum sé ekki talað nægilega hreinum tóni og afstaðan ekki nægilega afdráttarlaus, t.d. gagnvart þriðja orkupakkanum. Bjarni sagði að eins og landslagið væri í íslenskum stjórnmálum í dag þyrfti að horfa á stóru línurnar, hvað mestu máli skipti fyrir samfélagið og beina sjónum að þeim málum sem ríkisstjórnarflokkarnir eiga sameiginleg frekar en til þess sem aðgreinir Sjálfstæðisflokkinn frá samstarfsflokkunum í ríkisstjórn.
„Það er mikið frelsi sem fylgir því að vera í stjórnarandstöðu. Ég hafði gott af því sem leiðtogi flokksins og þingmaður að fá að vera í stjórnarandstöðu 2009 til 2013. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn var það á ákveðinn hátt bara frelsandi. Að fá að koma með sína tæru gagnrýni á það sem ríkisstjórnin var að gera. Það breytist þegar menn eru í stjórnarsamstarfi. Ríkisstjórnarsamstarfið snýst að verulegu leyti um að heildin standi saman, að meirihlutinn haldi og ferðist saman í gegnum stjórnartímabilið,“ segir Bjarni.
„Það eru þannig tímar uppi á Íslandi í dag að það þarf að hafa samstöðu um breiðu línurnar,“ sagði Bjarni. „Við erum að leita lausna fyrir samfélagið í heild og þurfum að taka það súra með því sæta.“
Páll spurði Bjarna hvort það væri liðin tíð að Sjálfstæðisflokkurinn næði 30 til 40 prósenta fylgi á landsvísu. „Ég held að allt sé mögulegt,“ sagði Bjarni. „Það ræðst á endanum alfarið á því hvernig flokknum tekst að halda talsambandi, trausti og trúnaði við kjósendur í landinu. Það var vitað að þetta yrði erfitt eftir hrunið en þá hafði Sjálfstæðisflokkurinn setið samfellt í ríkisstjórn frá 1991. Árið 2018 er staðan að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið samfellt í ríkisstjórn frá 1991 fyrir utan árið 2009 til 2013,“ segir Bjarni.
Segir hann að Sjálfstæðisflokknum hafi tekist ágætlega að vera kjölfestuflokkur á tímum mikils umróts í stjórnmálum á Íslandi. Flokkum á Alþingi hafi fjölgað og stofnaðir nýir flokkar um eitt eða fá málefni sem leiði til meiri afarkosta í stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn hafi sögulega verið breiður flokkur. Fundið lausnir sem mæta þörfum flestra; um frelsi einstaklingsins, minni ríkisumsvif, alþjóðatengsl og þéttrifið og öruggt velferðarnet þar sem verðmætasköpun er mest þegar fólk fær sjálft að spreyta sig.
Bjarni sagði að það væri ágætt þegar fólk er búið að festa sig í einstaka pólitískum ágreiningsefnum að spyrja sig grundvallarspurningar um hvernig gangi almennt í samfélaginu, að bæta hag einstaklinga frá einu ári til þess næsta. Benti hann á að atvinnuleysi væri nær ekkert, fjölbreytni í störfum fari vaxandi með stuðningi ríkisins við nýsköpun, rannsókn og þróun. Almennt virðisaukaskattþrep hafi aldrei verið lægra og Ísland sé það land þar sem minnstar tollahindranir eru til staðar. „Það skilar sér beint í vasa neytenda,“ sagði Bjarni og vísaði m.a. til breyttrar verðlagningar á raftækjum, skóm og fatnaði.
Sagði hann að þrátt fyrir að ríkisútgjöld hafi aukist þurfi að horfa til þess að ríkisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu hafi ekki aukist. Þjóðarlíkaminn sé orðinn stæltari og þá skapist svigrúm til að veita betri þjónustu. Það sé hins vegar mikið kappsmál fyrir Sjálfstæðisflokkinn að tryggja góða og hagkvæma ráðstöfun á ríkisfé að sögn Bjarna, og vísaði hann til samkeppnissjónarmiða og að fjármagn fylgi fólki en einkarekstur sé af hinu góða.
„Það er grundvallarstefna að hámarka nýtingu opinbers fjár. Reyna að laða fram samkeppni og tryggja hámarksnýtingu ríkis í tiltekin verkefni,“ sagði hann.