Bára kemur í skýrslutöku fyrir héraðsdómi í dag

Bára Halldórsdóttir.
Bára Halldórsdóttir. Eggert Jóhannesson

Bára Halldórsdóttir, sem sagst hefur standa á bak við upptöku af ósæmilegu framferði þingmanna á barnum Klaustri, hefur verið boðuð til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag klukkan korter yfir þrjú.

Samkvæmt bréfi héraðsdóms til Báru er ástæða boðsins að fjórir skjólstæðingar Reimars Péturssonar lögmanns hafa lagt fram beiðni um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna vegna atviksins sem átti sér stað þann 20. nóvember sl.

Forsenda þeirrar beiðni sem fjórmenningarnir hafa lagt fram eru ákvæði í lögum um meðferð einkamála og segir í umræddu bréfi að beiðnin verður ekki skilin öðruvísi en að dómsmál kunni að verða höfðað gegn henni.

Efnt hefur verið til samstöðufundar, Báru til stuðnings, fyrir utan héraðsdóm á morgun. „Þetta felst í að sýna henni stuðning og þetta er voðalega mikil spurning um að uppljóstrar hafi stuðning og vernd og það er það sem Bára er,“ segir Rannveig Ernudóttir sem skráð er skipuleggjandi fundarins á Facebook. Hún bætir við að sér þyki það mikilvægt að sýna Báru að hún standi ekki ein og að hún eigi þakklæti skilið.

Á síðu fundarins er fólk meðal annars beðið um að geyma hvers konar mótmælaaðgerðir og að Bára hafi beðið um að fólk mæti ekki í gulum vestum. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert