Lögmaður Rositu YuFan Zhang, eiganda Sjanghæ-veitingastaðanna, hefur sent Ríkisútvarpinu formlega kröfugerð, þar sem farið er fram á formlega afsökunarbeiðni og þrjár milljónir króna í miskabætur vegna umfjöllunar fréttastofu RÚV um veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri í fyrra.
Þetta staðfestir Sævar Þór Jónsson lögmaður Rositu í samtali við mbl.is. Hann segir að Rosita hafi nýlega leitað til sín til þess að reka málið áfram. Hann segir kröfugerðina eiga fullan rétt á sér og að RÚV hafi verið veittur frestur til loka vikunnar til þess að bregðast við.
„Þessu verður fylgt fast á eftir,“ segir Sævar Þór, en fyrr á þessu ári lýsti Jóhannes Már Sigurðarson lögmaður því yfir fyrir hönd Rositu að hún hygðist höfða mál á hendur Ríkisútvarpinu vegna fréttaflutnings af starfsmannamálum á veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri í lok ágúst í fyrra. Það fór hins vegar ekki lengra og nú er Rosita komin með annan lögmann, sem hefur sem áður segir sent formlega kröfugerð á RÚV.
Sjanghæ-málið vakti mikla athygli og var fyrirferðarmikið í fjölmiðlum landsins fyrstu dagana í september fyrir rösku ári.
Í fyrstu frétt RÚV af málinu 30. ágúst í fyrra sagði meðal annars að grunur léki á að starfsfólk veitingastaðarins fengi greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og borðaði matarafganga á staðnum.
Ábendingar um starfsaðstæður starfsmanna á veitingahúsinu höfðu borist til stéttarfélagsins Einingar-Iðju á Akureyri, sem fór í eftirlitsferð á veitingahúsið þann sama dag. Fulltrúi stéttarfélagsins ræddi svo við fréttamann RÚV í beinni útsendingu af vettvangi í kvöldfréttum.
Stéttarfélagið komst svo að þeirri niðurstöðu að þær upplýsingar um kjör starfsmanna sem fram kæmu í gögnum sem aflað var við vinnustaðaeftirlitið stæðust almenna kjarasamninga og launataxta sem giltu á veitingahúsum. Grunur um mansal reyndist því ekki á rökum reistum, samkvæmt athugun stéttarfélagsins.
Eining-Iðja sendi svo frá sér yfirlýsingu vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málið, þar sem fram kom að fréttastofa RÚV þyrfti ein að axla ábyrgð á því að hafa birt mynd af veitingastaðnum áður en sannað hefði verið að brot hefðu átt sér stað.
„Það að fréttamaður Ríkisútvarpsins kaus að flytja frétt af meintu mansali með því að birta mynd af veitingastaðnum, og þar með nafn hans, er að öllu leyti hans ákvörðun og þar með á hans ábyrgð, yfirmanna hans og stofnunarinnar í heild sinni,“ sagði í yfirlýsingu stéttarfélagsins.