Forsætisnefndin öll vanhæf

Forsætisnefnd Alþingis skipa: Jón Þór Ólafsson 5. varaforseti, Þórunn Egilsdóttir …
Forsætisnefnd Alþingis skipa: Jón Þór Ólafsson 5. varaforseti, Þórunn Egilsdóttir 4. varaforseti, Þorsteinn Sæmundsson 3. varaforseti, Þorsteinn Víglundsson áheyrnarfulltrúi, Inga Sæland áheyrnarfulltrúi, Guðjón S. Brjánsson 1. varaforseti, Steingrímur J. Sigfússon forseti, Brynjar Níelsson 2. varaforseti og Bryndís Haraldsdóttir 6. varaforseti. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, og allir varaforsetar þingsins eru vanhæfir til þess að fjalla um Klaustursmálið í nefndinni. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Alþingi að fulltrúar í forsætisnefnd hafi komist að þessari niðurstöðu eftir að hafa metið hæfi sitt með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar séu til þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum og að fengnum athugasemdum frá þeim þingmönnum sem komu við sögu í málinu.

„Samkvæmt 17. gr. siðareglna fyrir alþingismenn skal forsætisnefnd gæta þess að málsmeðferð siðareglumála sé í samræmi við meginreglur um óhlutdrægni og vandaða og réttláta málsmeðferð. Þessi krafa um óhlutdrægni getur vart leitt til annars en þess að gera verði sambærilegar kröfur til hæfis þeirra sem koma að ákvörðun máls í forsætisnefnd skv. 17. gr. siðareglna og gerðar eru til úrskurðarnefnda í stjórnsýslu samkvæmt stjórnsýslulögum,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Hæfi nefndarmanna forsætisnefndar beri því að meta á grundvelli hæfisreglna stjórnsýslulaga.

Forsætisnefndarmenn tjáð sig um málið

„Við slíkt mat skiptir máli hvernig einstakir nefndarmenn hafa tjáð sig í opinberri umræðu um hátterni þeirra þingmanna sem er til athugunar. Ljóst er af umfjöllun fjölmiðla að fjöldi þingmanna, þ.m.t. forsætisnefndarmenn, hafa tjáð sig um málið með ýmsum hætti og lýst viðhorfum sínum til framgöngu nefndra þingmanna. Nefndarmenn í forsætisnefnd hafa, að fengnum athugasemdum þeirra þingmanna sem um ræðir, metið hæfi sitt með hliðsjón af þeim ríku kröfum sem gerðar eru til þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum.“

Fyrir liggi sú niðurstaða að forseti og allir varaforsetar hafi sagt sig frá málinu, meðal annars vegna ýmissa ummæla sinna um málið. „Er þetta gert til þess að taka af allan vafa um mögulegt hæfi og til að tryggja framgang málsins, áframhaldandi vandaða málsmeðferð og að það geti gengið með réttum hætti til siðanefndar.“ Þá segir að forseti Alþingis leggi áherslu á að Klaustursmálið, sem og öll siðareglumál sem kunna að berast Alþingi, fái vandaða og óvilhalla málsmeðferð.

Gera þarf breytingar á þingsköpum

„Mun forsætisnefnd því koma saman í byrjun janúar til að fjalla um nauðsynlegar lagabreytingar svo að ekki verði töf á meðferð málsins. Markmið þeirra lagabreytinga er að tryggja að málið geti gengið með réttum hætti til siðanefndar. Í samræmi við fyrirmæli 4. gr. stjórnsýslulaga mun skrifstofa Alþingis halda því erindi, sem forsætisnefnd hefur móttekið, í réttu horfi þar til viðeigandi breytingar hafa verið gerðar á þingsköpum Alþingis og meðferð mála samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.“

Samkvæmt heoimildum mbl.is gerðu þeir sex þingmenn sem komu við sögu í Klaustursmálinu þá athugasemd að allir fulltrúar í forsætisnefndar Alþingis væru líklega vanhæfir til þess að fjalla um málið í nefndinni vegna ummæla sinna um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert