Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, verður settur til að taka ákvörðun um hvort hefja eigi málsmeðferð vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um framkvæmdir og kaup á mannvirkjum í Kaplakrika. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi í morgun, en tillaga þess efnis verður send forseta.
Heilbrigðisráðherra var upphaflega falið að fjalla um tvær stjórnsýslukærur minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem tengdust ákvörðun meirihlutans um að falla frá byggingu knatthúss í Kaplakrika og kaupa þess í stað aðrar eignir FH á svæðinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lýsti sig vanhæfan til að fjalla um málið vegna vanhæfis. Niðurstaða heilbrigðisráðherra var að vísa kærunum frá, en tók þó fram að það væri mat ráðherra að tilefni væri til að málsmeðferð Hafnarfjarðar væri tekin til athugunar af ráðuneytinu.
Samkvæmt tilkynningu ríkisstjórnarinnar í dag hefur Guðmundi Inga nú verið falið það verkefni að taka ákvörðun um hvort hefja eigi málsmeðferð vegna ákvörðunarinnar.