Júlíus Vífill Ingvarsson mun áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, en hann var í dag dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti. Þetta staðfestir Hörður Felix Harðarson, verjandi Júlíusar, við mbl.is.
Hörður segir að málinu sé áfrýjað af all nokkrum ástæðum og hafi það verið einföld ákvörðun. Segist hann hins vegar ætla að bíða málflutnings í Landsrétti til að fara yfir þær ástæður.
Við aðalmeðferð málsins kom skýrt fram að málið væri upprunnið í skattbrotum sem hefðu átt sér stað á níunda og í byrjun tíunda áratugarins. Voru þau því löngu fyrnd og voru bæði saksóknari og verjandi sammála um það. Hins vegar var Júlíus ekki ákærður fyrir skattbrotin, heldur fyrir peningaþvætti. Hafði hann geymt umboðsgreiðslur vegna viðskipta bifreiðaumboðsins Ingvars Helgasonar á árunum 1982-1993 á reikningi. Voru fjármunirnir, upp á 131-146 milljónir, ekkert hreyfðir þangað til árið 2014 þegar þeir voru millifærðir inn á sjóð sem Júlíus, ásamt eiginkonu sinni og börnum var rétthafi að.
Saksóknari taldi að með millifærslunni hefði Júlíus gerst sekur um peningaþvætti, þótt fjármunirnir væru fengnir með broti sem væri löngu fyrnt. Deildu saksóknari og verjandi bæði um afturvirkni laga sem og fyrningu í þessu samhengi.
Í dómi héraðsdóms er fallist á röksemd saksóknara um að brotið sé ófyrnt vegna millifærslunnar árið 2014, en ekki nánar farið út í afturvirknisröksemdir verjanda. Í greinargerð Júlíusar sem fjallað var um fyrir aðalmeðferðina og í málflutningi verjanda við aðalmeðferðina var meðal annars vísað til þess að lög um peningaþvætti hefðu ekki verið sett í lög fyrr en eftir að skattbrotin fyrndu voru sett í lög árið 1993. Þá áttu lögin heldur ekki við fyrr en eftir árið 2009, þegar þau voru rýmkuð þannig að þau áttu við ávinning af brotum sem ekki voru brot á almennum hegningarlögum (í þessu tilfelli skattalögum).