„Það er óásættanlegt að sérfræðilæknar geti ekki vænst þess að umsóknir þeirra fái faglega umfjöllun óháðra aðila við ráðningar að Landspítala háskólasjúkrahúsi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sérfræðilæknar hafa rekið sig á svipaðar niðurstöður, þó ekki hafi komið til kæru.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi undirrituðu af 240 læknum sem sent hefur verið til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála 19. september 2018 þar sem gerðar eru athugasemdir við vinnulag við ráðningaferla sérfræðilækna á Landspítalanum. Fjallað er um málið á vef Læknafélags Íslands í dag.
Málið snýst um ráðningu í stöðu sérfræðings í meltingarlækningum. Tvær umsóknir hafi borist sem fjallað hafi verið um af stöðunefnd læknaráðs Landspítalans og hafi töluverður munur verið á starfsreynslu umsækjendanna sem staðfest sé í úrskurðinum.
Þar segi að sá sem ekki hafi fengið stöðuna og kært ráðninguna hafi staðið mun framar þeim sem ráðinn hefði verið „hvað varðar alla þá þætti er áskildir voru í auglýsingu og fyrir liggur að sá er ráðinn var uppfyllti ekki öll skilyrði auglýsingar er umsóknarfrestur rann út.”
Fram kemur í bréfinu að úrskurður kærunefndarinnar hafi „verulega skaðleg áhrif á ímynd Landspítala sem háskólasjúkrahúss og mun hafa áhrif á áhuga lækna til að sækja um störf hér á landi. Við krefjumst úrbóta nú þegar.“