„Þá fóru þessir draugar að koma inn í söguna og segja má að þeir hafi tekið yfir stjórnina,“ segir Bergsveinn Birgisson um það þegar hann sendi nýlega frá sér skáldsöguna Lifandilífslæk.
„Ég er í þessari bók meðal annars að pæla í andstæðunum í veröldinni og mannfólkinu, dulúðinni annars vegar og vísindamódelinu hins vegar, þar sem allt er rökrétt og hólfað niður í bása, þar sem skynsemin ræður ríkjum og ekkert undur eða kraftaverk getur gerst eða nokkuð dulúðugt. Þetta er að hluta til pæling um hvað það hefur gert hugarfari okkar nútímafólks að missa dulúðina að stórum hluta úr lífi okkar,“ segir Bergsveinn.
Sagan segir frá Magnúsi Árelíusi sem sendur er frá Danmörku norður á Strandir „í rannsakstilgangi“, því til stendur að flytja Íslendinga til Danmerkur, til að „bjarga“ þeim frá sulti og seyru. Magnús er fulltrúi upplýsingarstefnu og vísindahyggju þess tíma, en hann kynnist öðrum og óvæntum hliðum lífsins á eigin skinni. Vísindamaðurinn reynist rammskyggn og draugar fylgja honum í leiðangrinum. Og ekki er allt útskýranlegt með vísindum sem fyrir ber.
„Þegar ég fór af stað með þessa sögu var ég með ákveðnar hugmyndir um hvað ég ætlaði að gera. Ég hafði vissa stjórn, en svo stoppaði sagan. Þetta var á erfiðum tíma í lífi mínu og ég sá að ég varð að gefast upp og sleppa tökunum, vera auðmjúkur og leyfa sögunni að verða eins og hún vildi vera. Þá fóru þessir draugar að koma inn í söguna og segja má að þeir hafi tekið yfir stjórnina. Glöggir lesendur sjá að frá miðbiki sögunnar gerist eitthvað með textann, ég var leiddur áfram. Ég hleypti að einhverju sem er stærra en ég sjálfur. Ég held að það sé oft vanvirt í listinni að skynja hve heili manns er smár og umkomulaus, þetta með að vera auðmjúkur og hleypa að þessum stóra anda sem er á bak við allt.“
Bergsveinn er þaulkunnugur sögusviði bókarinnar, Ströndum, hann dvaldi ungur drengur hjá ömmu sinni og afa á Selströnd við mynni Steingrímsfjarðar rétt norðan við Drangsnes. Hann borðaði selkjöt og selshreifa á hverjum laugardegi í uppvextinum og segir selkjöt enn vera sitt uppáhald.
„Átján ára sigldi ég til Norðurfjarðar og gerði út trillu þar í sex eða sjö sumur. Ég hef farið mikið um þetta svæði og er því nokkuð kunnugur en ég þurfti við ritun bókarinnar að tala við gömlu meistarana til að finna út hvar leiðir fólks lágu þarna um miðja átjándu öld, hestaleiðir yfir hálsa og annað slíkt. Ég hef líka lagt mig eftir að hlusta á gamalt fólk í gegnum tíðina, ég fór 17 ára og tók viðtöl við gamalt fólk á Vestfjörðum og norður á Ströndum sem sagði mér margt forvitnilegt frá þessum slóðum. Þá var fræjum sáð. Ef maður getur tjáð einhverja hugsun og vill koma einhverjum skilaboðum áfram til lesenda út frá svæði og menningu sem maður kannast persónulega við, þá á maður að gera það,“ segir Bergsveinn sem segir bréf til Landsnefndar fyrri frá Íslendingum frá því um 1770 hafa verið fjársjóð við bókarskrifin.
„Þar er venjulegt fólk að segja frá ástandi sínu og tengslum við höndlarann. Ég hefði til dæmis aldrei getað skrifað um brennivínssölumanninn nema af því slíkir menn koma fyrir í þessum bréfum,“ segir Bergsveinn en mikil vinna liggur að baki því að tileinka sér tungutak fyrri tíma. „Maður getur ekki aðskilið innihald og form. Ef maður ætlar að ná stemningu þessa tíma og talanda hins danska aðals, þá verður maður að nota þennan kansellístíl, til að fanga það hvernig fólk hugsaði.“ Þegar hann er spurður að því hvort hann hafi ákveðnar persónur í lifanda lífi sem fyrirmyndir í þeim skondnu og allsérstökum persónum sem bregður fyrir í bókinni, segir hann að rithöfundar verði vissulega alltaf fyrir áhrifum af fólki sem þeir mæta á lífsleiðinni. „Hjá mér er hver persóna oftast smíðuð úr nokkrum sem ég þekki eða hef hitt, þannig býr maður til nýja manneskju.“
Saga Bergsveins er marglaga en við lestur hennar verður lesandanum óneitanlega hugsað til fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Ströndum, því víða er komið inn á yfirgang valdsins og dýrmæti ósnortinnar náttúru.
„Ég tala vissulega beint inn í samtímann með því að velja Strandir sem sögusvið. Upplýsingamaðurinn er fyrstur til að horfa á náttúruna með hugarfari þess sem spyr: hvernig get ég grætt peninga á þessu? Þetta viðhorf er hættulegt ef það fer úr hömlu. Hagfræðimódelið setur Hvalárvirkjun fram sem skynsemi og framfarir, að það sé verið að efla atvinnulíf, vegagerð, rafmagnsöryggi og svo framvegis. En hið óhugnanlega er að það verða hvorki betri vegir né betra rafmagnsöryggi. Þetta mun ekki styðja við byggðina eða fólkið, þvert á móti. Það er skekkjan í þessu, menn nota sjónarmið skynsemismannsins og beita því til að skapa gróða fyrir nokkra auðmenn í Kanada og einn Íslending. Svæðið á Ströndum mun ekkert fá í sinn vasa, fólk gefur landið erlendu auðvaldi. Í þessu kristallast yfirgangur valdsins, sem við sjáum líka úti í heimi, almenningur hefur sífellt minna um það að segja hvernig hlutirnir fara.
Gamla hugmyndin um að verða upplýst manneskja snerist nefnilega líka um að þekkja fortíðina og söguna. Nú hefur hagnýtissjónarmið skynseminnar sigrað, sem er ekki það sem upphaflegu upplýsingarmennirnir vildu. Þessi hagkvæmnissjónarmið eru eins og trúarbrögð, ofuráhersla á hagvöxt í nútímanum er trúarkredda,“ segir Bergsveinn og bætir við að hagfræðingar sem til dæmis sitja hjá OECD og segja hinum ýmsu löndum að forgangsraða á þennan veginn eða hinn, þeir skilji ekki hvað þeir eru að eyðileggja.
„Þeir hafa ekki hugmynd um það, því það er rof á milli kontórista og menningar. Þessir menn í röðum hagfræðiafla hafa allt of mikil völd, án þess að skynja hvernig þeir eru að sundra menningu og gerbreyta hugarfari fólks á þann veg að mennskan sjálf líður fyrir. Hagfræðingar ættu að leggja stund á húmanísk fræði áður en þeir verða hagfræðingar, veröldin þarf á því að halda, ef hún á að standa.“