Baldur Arnarson
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir áform ríkisstjórnarinnar um lækkun tekjuskatts verða endurmetin ef samið verði um óábyrgar launahækkanir í komandi kjarasamningum.
„Við höfum boðað skattalækkanir í þágu þeirra sem eru í neðra þrepinu, lægri og millitekjuhópunum, en það er óskynsamlegt að fylgja því eftir ef kjarasamningar fara úr böndunum og menn eru að taka út meira en innistæða er fyrir. Þá þarf að huga mjög vel að tímasetningu slíkra aðgerða. Þær eru hugsaðar til að greiða fyrir samningum en ekki til að greiða fyrir óábyrgum samningum,“ segir Bjarni.
Tilefnið er óvissa um hagvöxt vegna óróa í ferðaþjónustunni. Með því gætu tekjur ríkissjóðs á næsta ári reynst minni en áætlað var. Miðað við núverandi afkomumarkmið má ekki mikið út af bera til að afkoma fari undir gólf fjármálastefnunnar á næstunni. Því er svigrúm til launahækkana hjá ríkinu lítið.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, augljóst að svigrúm ríkissjóðs til launahækkana verði minna á næstu misserum en verið hefur undanfarin ár.