Menntamálaráðherra heimsótti tökustað

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Kristinn Þórðarson, framleiðandi Truenorth, Lilja Alfreðsdóttir, …
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Kristinn Þórðarson, framleiðandi Truenorth, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Björn Thors, leikari, Nína Dögg Filippusdóttir, leikkona, og Þórður Pálsson, leikstjóri. Ljósmynd/Aðsend

„Gróskan í íslenskri kvikmyndagerð er mikil og eftirtektarverð,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem heimsótti í morgun tökustað nýrrar íslenskrar spennuþáttaraðar sem nefnist Valhallarmorðin og framleidd er af Truenorth. Kristinn Þórðarson, framleiðandi Truenorth og formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), tóku á móti Lilju.

Ráðherra, ásamt aðstoðarmanni sínum og skrifstofustjóra skrifstofu menningarmála, fylgdust með tökum og ræddu við leikstjóra, leikara og aðra starfsmenn sem koma að verkefninu.  Á annað hundrað manns koma að gerð þáttanna sem verða átta talsins. Þáttaröðin hefur nú þegar verið seld víða um heim en gerður hefur verið samningur við alþjóðlega efnisveitu um dreifingu þáttanna, samkvæmt fréttatilkynningu frá Truenorth.

„Það er ekki annað hægt en að fyllast stolti yfir þeim árangri sem framleiðendur íslenskra sjónvarpsþátta hafa náð á frekar skömmum tíma og á markaði þar sem samkeppnin er afar hörð. Það er frábært að þættirnir séu á íslensku og að eftirspurnin og áhuginn sé svona mikill, það undirstrikar mikilvægi íslenskrar kvikmyndaframleiðslu fyrir tungumálið,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur í fréttatilkynningu.

Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Hannesson segir að framleiðsla á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sé mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf og að árleg velta í kvikmyndaiðnaði nemi á bilinu 15-20 milljörðum króna.

„Eru þá ekki talin með þau óbeinu hagrænu áhrif sem kvikmynda- og sjónvarpsframleiðsla hefur á aðrar greinar atvinnulífsins og þar með verðmætasköpun. Nefna má að fjölmargir ferðamenn sækja Ísland heim eftir að hafa séð náttúrfegurð landsins í sjónvarpi,“ segir Sigurður.

Kristinn Þórðarson segir að endurgreiðslufyrirkomulag vegna kostnaðar við kvikmynda- og sjónvarpsframleiðsluverkefni hér á landi hafi vakið áhuga erlendra aðila og tugir erlendra verkefna hafi verið unnin hér á landi undanfarin ár.

„Þannig hefur byggst upp þekking og reynsla í kvikmyndaiðnaði á Íslandi sem hefur skilað sér í auknum gæðum og aukinni eftirspurn eftir íslensku efni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert