Dómur yfir Júlíusi „mjög fordæmisgefandi“

Júlíus Vífill Ingvarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur við þingfestingu málsins í …
Júlíus Vífill Ingvarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur við þingfestingu málsins í september. mbl.is/Valli

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að dæma Júlíus Vífil Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti, er mjög mikilvægt fordæmi. Ekki var farið fram á kyrrsetningu eða haldlagningu fjármunanna vegna meðalhófs, segir Björn Þorvaldsson saksóknari.

Héraðssak­sókn­ari ákærði Júlí­us fyr­ir pen­ingaþvætti með því að hafa geymt sem nem­ur á bil­inu 131-146 millj­ón­um króna á er­lend­um banka­reikn­ing­um, en hluti fjár­mun­anna var sagður ávinn­ing­ur refsi­verðra brota.

Við aðalmeðferð máls­ins kom skýrt fram að málið væri upp­runnið í skatt­brot­um sem hefðu átt sér stað á ní­unda og í byrj­un tí­unda ára­tug­ar­ins. Voru þau því löngu fyrnd og voru bæði sak­sókn­ari og verj­andi sam­mála um það. Hins veg­ar var Júlí­us ekki ákærður fyr­ir skatt­brot­in, held­ur fyr­ir pen­ingaþvætti. Sak­sókn­ari taldi að með því að milli­færa fjármunina inn á sjóð í Sviss hefði Júlí­us gerst sek­ur um pen­ingaþvætti, þótt fjár­mun­irn­ir væru fengn­ir með broti sem væri löngu fyrnt.

Málið sérstakt og gæta þurfti meðalhófs

Ólíkt því sem gert er við rannsókn flestra mála er varða peningaþvætti var ekki farið fram í kyrrsetningu eða haldlagningu fjármunanna í máli Júlíusar. Björn Þorvaldsson saksóknari segir að þá ákvörðun megi rekja til þess að málið hafi verið að vissu leyti sérstakt og nauðsynlegt hafi verið að gæta meðalhófs við rannsóknina.

„Þetta var mjög ólíkt öðrum peningaþvættis málum. Frumbrotið var framið á 9. og 10. áratug síðustu aldar og var þess vegna löngu fyrnt. Þetta hafði ekki reynt á í máli hér á landi áður og vegna ákveðins meðalhófs í málinu var ekki farið út í kyrrsetningu og haldlagningu,“ segir Björn.

Björn Þorvaldsson, saksóknari.
Björn Þorvaldsson, saksóknari. mbl.is/Golli

Prófmál sem er fordæmisgefandi

Í dómi héraðsdóms var fall­ist á þá rök­semd sak­sókn­ara að brotið væri ófyrnt vegna milli­færsl­unn­ar árið 2014, en ekki nán­ar farið út í aft­ur­virkn­is­rök­semd­ir verj­anda. Í grein­ar­gerð Júlí­us­ar sem fjallað var um fyr­ir aðalmeðferðina og í mál­flutn­ingi verj­anda við aðalmeðferðina var meðal ann­ars vísað til þess að lög um pen­ingaþvætti hefðu ekki verið sett í lög fyrr en eft­ir að skatt­brot­in fyrndu voru sett í lög árið 1993. Þá hafi lögin heldur ekki átt við fyrr en eftir árið 2009, þegar þau voru rýmkuð.

„Sjálfþvætti varð ekki refsivert hérna fyrr en í lok árs 2009. Fram að þeim tíma gat maður bara framið peningaþvætti með ávinning af afbrotum annarra, ekki af eigin afbrotum. Þannig frá lok árs 2009 þá gat maður bæði framið frumbrot, t.d. skattalagabrot eða þjófnað, og sjálfþvætti með því að geyma eða flytja ávinninginn,“ útskýrir Björn og tekur fram að yfirleitt séu frumbrot ekki fyrnd líkt og í þessu máli.

„Hér vorum við með ávinning sem var mjög gamall og það hafði ekki reynt á þetta í málum hér á landi áður. Af þeim sökum þótti ekki rétt að vera fara í kyrrsetningu og haldlagningu í þessu máli,“ segir hann og bætir við:

„Þetta var ákveðið prófmál hvað þetta varðar og mjög mikilvægt fordæmi eftir að það liggur fyrir.“

Hörður Felix Harðarson, verjandi Júlíusar, gaf það út í gær að dómnum yrði áfrýjað af nokkrum ástæðum og að ákvörðun um áfrýjun hefði verið einföld. Það kom Birni alls ekki á óvart enda „mjög eðlilegt að það sé látið reyna á þetta áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert