Segir upp vegna áreitni yfirmanns

Málið fór fyrir siðanefnd HÍ sem komst að því að …
Málið fór fyrir siðanefnd HÍ sem komst að því að yfirmaðurinn hafi brotið þrjár greinar siðareglna Háskólans. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hafi fólk einlægan áhuga á að vita hvers vegna konur flýja HÍ er skýringin ekki svo flókin.“ Þetta segir Sigrún Helga Lund, prófessor í líftölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, í færslu á Facebook-síðu sinni, þar sem hún lýsir erfiðum samskiptum og kynferðislegri áreitni sem hún hefur mátt þola frá yfirmanni sínum í rúmlega tvö ár.

Sigrún kærði áreitnina til siðanefndar háskólans sem kvað upp dóm í júlí, Sigrúnu í vil. Ekkert hefur hins vegar breyst, að sögn Sigrúnar, hún hefur ekki fengið nein viðbrögð frá rektor eða starfsfólki háskólans og því hefur hún ákveðið að segja upp starfi sínu.

„Ég er búin að reyna öll úrræði innan háskólans í tvö og hálft ár. Síðasta sem ég kannaði var hvort hægt væri að flytja mig milli sviða, að ég þyrfti ekki að sitja á sama gangi og þessi maður,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is.

Sigrún Helga Lund, prófessor í líftölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum …
Sigrún Helga Lund, prófessor í líftölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, hefur sagt upp störfum vegna kynferðislegrar áreitni yfirmanns. Ljósmynd/Aðsend

Fékk viðbrögð eftir að hafa slegið manninn utan undir

Í færslunni rekur Sigrún málið og segir að sumarið 2016 hafi hún lýst áhyggjum yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi af völdum yfirmanns hennar í starfsmannaviðtali. „Engin viðbrögð fylgdu þeirri kvörtun, ástandið versnaði ört og þegar það var loks orðið óbærilegt svaraði ég fyrir mig og löðrungaði yfirmanninn. Þá fyrst brást Háskólinn við en á allt annan máta en mig óraði fyrir,“ skrifar Sigrún.

Viðbrögð stjórnenda háskólans voru að senda Sigrúnu í veikindaleyfi. „Þegar ég neitaði að hlýða var mér hótað áminningu sem HÍ neyddist þó til að láta niður falla enda málið allt á sandi byggt,“ skrifar hún.

Mitt í miðri #metoo-umræðu

Í færslunni lýsir hún því að á sama tíma reis #metoo umræðan sem hæst. „Þar sem HÍ barði sér hvað mest á brjóst.“ Sigrún segir í samtali við mbl.is að það hafi verið sturlað að fylgjast með #metoo-umræðunni á sama tíma og hún leitaði réttar síns. „Ég hafði alltaf smá trú á Háskólanum og vildi láta á það reyna og fara ekki með málið í fjölmiðla og láta reyna á réttar boðleiðir innan háskólans. Það er ekki fyrr en tveimur og hálfu ári síðar að ég sé að þetta er fullreynt,“ segir Sigrún.   

Siðanefnd háskólans fjallaði um málið og komst að þeirri niðurstöðu að yfirmaður Sigrúnar hafi brotið þrjár greinar siðareglna Háskólans. „Það var ekki fyrr en að lögfræðingurinn minn stafaði niðurstöðuna ofan í mig að ég áttaði mig á að ég hafði unnið málið. Ég hefði aldrei trúað því hvað gaslýsingin er sterk,“ skrifar Sigrún.

Ekkert heyrt frá rektor

Málið var því komið til rektors og fékk Sigrún fregnir af því að siðanefnd hefði fundað með honum og segist hún hafa beðið spennt eftir að heyra frá honum. „En aldrei heyrðist neitt. Nú er nær hálft ár liðið síðan dómur féll, ekki stakt orð borist frá rektor og allt ástand óbreytt - ef ekki verra,“ skrifar Sigrún.

Hún  býst ekki við að fá nein viðbrögð frá Háskólanum eftir að hún sagði starfi sínu lausu. Þetta hafi verið hennar síðasta úrræði. „Ég bara get ekki hugsað mér að hefja annað starfsár í þessu umhverfi,“ segir Sigrún.  

mbl.is hafði samband við skrifstofu rektors vegna málsins en Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, gat ekki veitt viðtal vegna málsins að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert