Skilur vel ákvörðun Eflingar

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags.
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við munum funda núna í vikunni og meta hvað við gerum,“ segir Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík, í samtali við mbl.is spurður hvort félagið kunni að fara að dæmi Eflingar og afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu.

„Það er alveg ljóst að við höfum verið ósátt við ýmislegt sem verið hefur í farvatninu undanfarið,“ segir Aðalsteinn en ótímabært sé að tjá sig að öðru leyti um málið fyrr en fundað hafi verið um málið innan félagsins. Hins vegar hafi hann skilning á ákvörðun Eflingar.

„Ég hef fullan skilning á því enda tel ég sjónarmið Eflingar ekki hafa notið fulls réttmætis [innan Starfsgreinasambandsins]. Þeir eru um 27 þúsund af 57 þúsund manna sambandi og mér hefur fundist þeirra vægi þarna inni vera alltof lítið miðað við stærð,“ segir Aðalsteinn.

Varðandi ákvörðun Eflingar áréttar Aðalsteinn að málið verði einfaldlega tekið til skoðunar innan Framsýnar og síðan verði tekin ákvörðun í framhaldinu hvað félagið geri. Aðalsteinn segist aðspurður vita af fleirum félögum sem séu að skoða sína stöðu á sama hátt.

„Það eru einhver félög sem bíða eftir því hvað við gerum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert