„Það má segja að draumur minn hafi orðið að veruleika þegar ég fékk bókina fyrst í hendurnar. Auðvitað kemur það mörgum á óvart að ég sé svona ungur að gefa út bók en ég hef stefnt að þessu lengi,“ segir Ólíver Þorsteinsson, 22 ára gamall rithöfundur, sem nú á dögunum gaf út sína fyrstu bók, Leitin að Jólakettinum.
Bókin er fyrir börn á leikskólaaldri en sjálfur starfar Ólíver á leikskóla og hefur gert undanfarin tvö ár. „Það má segja að hugmyndin að þessari bók hafi kviknað á leikskólanum og ég nýtti mér aðstoð krakkanna sem ég hef verið að starfa með. Þeir gáfu mér hugmyndir að persónum og nöfnum sem ég notaði í bókinni sem var virkilega skemmtilegt,“ segir Ólíver og bætir við að frá því að skrif hófust séu nú liðin tæplega tvö ár. Þrátt fyrir það sé bókin ekki sú fyrsta sem hann skrifar en Ólíver hefur frá unga aldri haft mikinn áhuga á því að skrifa bækur.
„Ég hef haft gríðarlega ástríðu fyrir því að skrifa bækur og alltaf þótt það afar skemmtilegt. Maður hverfur inn í annan heim meðan á skrifum stendur og gleymir sér algjörlega. Ég hef eiginlega verið að skrifa frá því að ég man eftir mér en það er fyrst núna sem bók frá mér hefur verið gefin út,“ segir Ólíver.
Sjá viðtal vi Ólíver í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.