Feta ekki í fótspor Eflingar

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert félag innan Starfsgreinasambandsins, fyrir utan Eflingu og Verkalýðsfélag Akraness, hefur ákveðið að afturkalla samningsumboð sitt frá sambandinu í kjaraviðræðunum sem nú standa yfir.

Mbl.is hefur rætt við formenn eða varaformenn allra félaga innan sambandsins. Í sumum tilfellum hefur ekki verið fundað um nýjustu stöðu mála og í öðrum tilfellum ætla félögin að halda sig við fyrri ákvarðanir sem þau hafa tekið um að vísa málinu ekki til ríkissáttasemjara.

Í tilkynningu frá Starfsgreinasambandinu í dag kemur fram að innan raða þess séu 19 stéttarfélög og rúmlega 57 þúsund félagsmenn um landið allt. „Samninganefndir hvers félags um sig fara með samningsumboð fyrir hönd sinna félagsmanna en hafa oft falið sameiginlegri samninganefnd SGS að fara með umboðið. Ef einstök félög meta það svo að það sé skynsamlegra vegna aðstæðna hjá þeim að hafa umboðið hjá sér og eiga viðræður beint við atvinnurekendur þá geta þau að sjálfsögðu gert það hvenær sem er,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að sambandið muni halda viðræðum áfram af krafti og í góðri samvinnu við öll félögin innan sambandsins til að ná fram réttmætum kröfum í von um að bæta hag félagsmanna sinna.

Aðalsteinn Árni Baldursson.
Aðalsteinn Árni Baldursson. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík, sagði við mbl.is í gær að í skoðun væri hvort félagið myndi fylgja Eflingu og afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu. Fundað yrði um það á næstunni.

Arnar G. Hjaltalín, formaður Drífandi stéttarfélags í Vestmannaeyjum, segir að eitthvað mikið þurfi að gerast til þess að félagið afturkalli samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu. Ekkert í stöðunni kalli á slíka breytingu þó staðan sé stöðugt í skoðun.

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLS.
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLS.

Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir, formaður AFL Starfsgreinafélags, segir að félagið hafi ekki annað í hyggju en að taka áfram þátt í kjaraviðræðum í samfloti með Starfsgreinasambandinu.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði, segir að ákveðið hafi verið á stjórnarfundi að ekki væri tímabært að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara fyrir jól og gefa viðræðum meiri tíma. Félagið hafi ekki áform um að afturkalla samningsumboð sitt.

Guðmundur Finnbogason, formaður Samstöðu stéttarfélags í Húnavatnssýslu, segir engin áform af hálfu félagsins um að draga til baka samningsumboð sitt. Eftir áramót verði róðurinn hertur og skili það engu þá verði deilunni vísað sem fyrst til ríkissáttasemjara.

Signý Jóhannesdóttir, formaður Stéttarfélag Vesturlands, segir félagið ekki hafa önnur áform en að vera áfram í samfloti með Starfsgreinasambandinu. „Hér erum við bara frekar róleg.“

Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, segir að eftir sé að fara yfir málið en ekki liggi fyrir hvort fundað verði um stöðuna fyrir eða eftir jól. Aðspurður segir hann félagið hafa stutt það að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórarinn Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði, segir sitt félag ekki vera að hugsa sér til hreyfings. Það er að afturkalla samningsumboð þess. „Við sjáum ekki alveg að það hafi einhver betri áhrif til þess að ýta við viðræðunum, ég held ekki.

Örn Bragi Tryggvason, varaformaður Bárunnar Stéttarfélags, segir að forysta félagsins ætli að funda um stöðu mála á morgun.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur lýst því yfir að hans félag ætli að fylgja Eflingu og afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu. 

Þá hefur stéttarfélagið Eining-Iðja hefur ekki í hyggju að afturkalla samningsumboð sitt en formaður félagsins, Björn Snæbjörnsson, er formaður Starfsgreinasambandsins.

Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, segir að félagið hafi fyrst verið á þeirri skoðun að vísa deilunni strax til ríkissáttasemjara. Það hafi ekki komið saman út af stöðunni sem er uppi núna. Hann segir að það breyti litlu upp á heildarmyndina hvort þau vísi málinu til ríkissáttasemjara fyrir eða eftir jól.

Kristján Gunnarsson.
Kristján Gunnarsson. Ljósmynd/Kristján Kristjánsson

Formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis, Magnús S. Magnússon, segir að ekki hafi verið tekin afstaða til málsins en að hann ætli að tala við sitt fólk í dag. Hann segir að afstaða félagsins á síðasta fundi hafi verið skýr fyrir um að ekki væri væri rétti tíminn til að vísa málinu til ríkissáttasemjara.

Formenn Verkalýðsfélaga Snæfellinga, Suðurlands og Vestfirðinga eru allir sammála því að draga umboðið ekki til baka frá Starfsgreinasambandinu.

Hvorki náðist í formenn Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur né Verkalýðsfélags Þórshafnar. Varaformaður fyrrnefnda félagsins hafði ekki upplýsingar um stöðu mála og varaformaður hins síðarnefnda vildi ekkert tjá sig og sagði stjórnina ekki hafa fundað um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert