„Það er augljóst að fólk er komið í svolítið mismunandi takt. Þá er bara að taka stöðuna þaðan,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, um þá ákvörðun Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness að afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu.
Drífa kveðst líta svo á að ekkert rof sé í samstöðunni varðandi sameiginleg mál sem eru á borði ASÍ, þar á meðal skattamálin, húsnæðismálin og félagsleg undirboð. „Við höldum okkar striki varðandi ákveðin mál. Síðan kemur stundum tímapunktur þar sem þarf að horfast í augu við það að fólk fer í mismunandi takti og þá er kannski hreinlegast að það verði þannig.“
Spurð segir hún ákvörðun Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness ekki hafa komið sér á óvart. Hún hafi skynjað það, eins og flestir aðrir, að þau myndu afturkalla samningsumboðið.
Drífa segir alltaf best ef algjör samstaða ríki en ágreiningsmál geti alltaf komið upp. Hún bendir á að ekki sé ágreiningur um kröfugerðina heldur um leiðir að markmiðinu. „Þá verður bara að horfast í augu við það.“
Veikir þetta vinnuna við gerð kjarasamninga?
„Það á eftir að koma í ljós. Ég hef sagt að á einhverjum tímapunkti þarf að undirrita kjarasamninga. Hvort þetta flýti ferlinu eða tefji það, það á eftir að koma í ljós.“