Gifta sig frekar í kirkju á sumrin

Hjónavígslur eru mun fleiri yfir sumarmánuðina heldur en að hausti og vetri. Kirkjan nýtur mikilla vinsælda til sumarbúðkaupa, en að vetri hefur giftingum hjá sýslumanni fjölgað.

Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands er ágústmánuður stærsti einstaki mánuðurinn í þessu tilliti en alls stofnuðu 714 einstaklingar til hjúskapar í ágúst í sumar. Júlí og júní koma næstir, en þá stigu 586 og 501 einstaklingur þessi skref. Svipaða sögu er að segja frá síðasta ári, en þá var júlí langvinsælastur er 802 einstaklingar giftu sig. Í ágúst voru þeir 532 og 500 í júní.

Fæstir nota hins vegar tækifærið í janúar og febrúar til að ganga í hjúskap, en í ár voru það 148 og 168 einstaklingar. Í fyrra var minnst að gera í þessum efnum í febrúarmánuði er 112 stofnuðu til hjúskapar.

Kirkjan með 55-60%

Í blaðinu í gær var greint frá því að í október og nóvember síðastliðnum hefðu fleiri stigið þessi stóru skref hjá sýslumanni heldur en hjá presti. Yfir sumarmánuðina er þessu þveröfugt farið og af þeim 714 einstaklingum sem stofnuðu til hjúskapar í ágúst í sumar leituðu 430 eða rúmlega 60% til þjóðkirkju. Í júní, júlí og september var þjóðkirkjan með 55-57% af öllum hjónavígslum. Í janúar og nóvember var þetta hlutfall 31 og 33%.

Í janúar og nóvember leitaði hins vegar helmingur þeirra sem stofnuðu til hjúskapar til sýslumanns, en það hlutfall er lægst yfir sumarmánuðina, 20-26%. Hlutfall þeirra sem gifta sig hjá skráðu trúfélagi utan þjóðkirkju var hæst í maí, 20,6%, en það var tæplega 11% af heildinni í janúar og febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert