Landspítalinn réð lækninn sem kærði

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/​Hari

Samkomulag hefur náðst um ráðningu sérfræðilæknis, sem kærði Landspítala vegna ráðningar sérfræðings í meltingarlækningum, í sambærilegt starf hjá spítalanum. 

Þetta kemur fram í svari Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala, við fyrirspurn mbl.is.

Tvær umsóknir bárust um stöðuna og var karlmaður ráðinn. Konan kærði ráðninguna og taldi að brotið hefði verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærunefnd jafnréttismála gerði athugasemdir við vinnulag við ráðningaferla sérfræðilækna á Landspítalanum og sagði að brotin hefðu verið lög.

Fyrr í vikunni fékk Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra afhent bréf undirritað af 240 læknum þar sem kom fram að óviðunandi væri að sérfræðilæknar gætu ekki vænst þess að umsóknir þeirra fengju faglega umfjöllun óháðra aðila við ráðningar að Landspítala háskólasjúkrahúsi.

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert

Landspítali harmar mistökin

„Mannauðsmál eru í hæsta forgangi í starfsemi og hluti af kjarnaundirstöðu í stefnu Landspítala, sem er tæplega 6.000 manna vinnustaður að viðbættum tæplega 2.000 nemendum. Umrætt svið telur alls um 1.100 manns og er því eitt og sér einn stærsti vinnustaður landsins. Það segir sig sjálft að stærðargráður í rekstri Landspítala eru slíkar, að því miður fer einstaka sinnum eitthvað úrskeiðis, líkt og gerðist í umræddu máli. Landspítali harmar það,“ segir í svari Páls Matthíassonar.

Skerpa á verkferlum við ráðningar

„Í þessu tilfelli var réttu verklagi ekki fylgt eins og kærunefnd jafnréttismála benti á í úrskurði sínum. Það er alls ekki gott og við teljum það ekki ásættanlegt. Af því tilefni er verið að styrkja til muna mannauðsmál á viðkomandi sviði og skerpa á verkferlum við ráðningar. Jafnframt hefur samkomulag náðst um ráðningu þessa sérfræðilæknis (í sambærilegt starf). Landspítali tekur atvik sem þessi mjög alvarlega og leitast ætíð við að koma í veg fyrir endurtekningu þeirra,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert