Akraneskaupstaður skrifaði í dag undir samning við fyrirtækið Work North um niðurrif á Sementsstrompinum og hljóðar hann upp á 26 milljónir króna. Strompurinn verður sprengdur niður í tveimur hlutum.
Sérfræðingar frá dönsku verkfræðifyrirtæki hafa veitt ráðgjöf við niðurrifið.
Að sögn Sævars Freys Þráinssonar, bæjarstjóra Akraness, verður strompurinn tekinn niður einhvern tímann á fyrstu sex vikum nýs árs.
„Þegar þar að kemur munum við auglýsa það vel,“ segir Sævar Freyr og nefnir að ákveðin hús sem eru staðsett alveg við strompinn verða rýmd í öryggisskyni. Miðað er við hús í 30 metra radíus og verða þrjú til fjögur hús rýmd.
Work North hóf í dag undirbúning vegna niðurrifsins eftir að samningurinn hafði verið undirritaður. Fyrirtækið hefur einnig annast niðurrif Sementsverksmiðjunnar og að sögn Sævars Freys hefur verkefnið gengið vel. Aðeins er lokafrágangur eftir.