Kötturinn Baktus, sem séð hefur um næturvörslu í Gyllta kettinum í um sex ár, er týndur. Grunur leikur á að honum hafi verið rænt í gærkvöldi. Á Instagram-síðu Baktusar segir að síðast hafi sést til Baktusar á Klapparstíg og að hann hafi ekki skilað sér á sinn stað í verslun Gyllta kattarins í Austurstræti í morgun.
„Þegar Baktus týnist eru allar klær settar út,“ segir Hafdís Þorleifsdóttir eigandi Gyllta kattarins og Baktusar, í samtali við mbl.is. Hún hefur heimildir fyrir því að maður hafi tekið Baktus upp í bíl við Klapparstíg og ekið upp í Breiðholt þaðan sem Baktus slapp úr bílnum, í grennd við Fífusel.
„Það fokkar enginn í Dísu og Baktusi,“ segir Hafdís og lofar hún veglegum fundarlaunum þeim sem geta komið Baktusi til síns heima.
View this post on InstagramA post shared by Hr.Baktus (@baktusthecat) on Dec 20, 2018 at 7:06am PST
Baktus á fjölmarga aðdáendur, en honum fylgja um sjö þúsund manns á Instagram. Baktus vekur mikla athygli meðal viðskiptavina Gyllta kattarins og annarra sem eru á ferð um bæinn. mbl.is fjallaði um Baktus fyrr í vetur og þá sagði Hafdís að ferðamenn sem fylgjast með Baktusi á Instagram gera sér sérstaka ferð í Gyllta köttinn til að spyrja eftir honum. Eins geri börn sér ferð í búðina með mömmu og pabba í bæjarferð til að heimsækja kisa.