Nýr vefur um lifandi hefðir á Íslandi var formlega opnaður í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í gær. Þar verður upplýsingum safnað og þekkingu um lifandi hefðir miðlað með það fyrir augum að auka þekkingu á menningararfi sem og vitund um og virðingu fyrir ólíkri menningu.
Vilhelmína Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hefur unnið að gerð vefsins síðustu mánuði en hún segir afar ánægjulegt að hann sé kominn í loftið.
„Þetta er vefur fyrir almenning þar sem fólki gefst kostur á að deila og miðla þekkingu sinni á lifandi hefðum, hvort sem þær eru aldagamlar eða nýjar af nálinni. Vonir standa til að með tímanum verði þetta orðinn góður upplýsingabanki um þær fjölbreyttu hefðir sem stundaðar eru hérlendis,“ segir Vilhelmína.
Sjá viðtal við Vilhelmínu um nýja vefinn í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.