Fyrsta skóflustunga að 60 nýjum íbúðum

Magnús Björn Brynjólfsson, formaður Samtaka aldraðra og Dagur B. Eggertsson, …
Magnús Björn Brynjólfsson, formaður Samtaka aldraðra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, tóku fyrstu skóflustunguna. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta skóflustunga var í dag tekin að 60 íbúðum sem byggðar verða við Austurhlíð 10. Að byggingunni standa Samtök aldraðra. Magnús Björn Brynjólfsson, formaður Samtaka aldraðra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, tóku fyrstu stunguna.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökunum hefjast framkvæmdir á næstunni og nemur byggingarmagnið rúmum 7.500 fermetrum. Áætluð verklok eru í apríl árið 2021 og annast Alverk ehf. byggingu húsanna og skilar þeim fullfrágengnum. Aðalhönnuðir húsanna eru Arkþing ehf., verkfræðihönnun er á vegum Lotu ehf. og verkfræðiráðgjöf hjá verkfræðistofunni EFLU.

Staðsetning íbúðanna er sögð heppileg, en þjónustumiðstöð aldraðra við Bólstaðarhlíð …
Staðsetning íbúðanna er sögð heppileg, en þjónustumiðstöð aldraðra við Bólstaðarhlíð 45 er í næsta nágrenni. Ljósmynd/Aðsend

Í tilkynningunni kemur fram að mikill áhugi sé fyrir verkefninu og að um 350 manns hafi mætt á kynningarfund um verkefnið nýverið. 80 manns hafi þegar skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á íbúð þegar húsin eru risin og því virðist sem umframeftirspurn verði eftir íbúðunum.

Öllum íbúðunum munu fylgja rúmgóð bílastæði í bílastæðageymslu og verða þær búnar lokuðum svölum. Staðsetningin þykir góð að því er segir í tilkynningu enda rísi íbúðirnar við hlið þjónustumiðstöðvar aldraðra við Bólstaðarhlíð 45 á nýjum þéttingarreit í grónu hverfi í Hlíðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert