Færeyska lögþingið hefur veitt utanríkisráðherra landsins heimild til þess að segja upp Hoyvíkursamningnum, fríverslunarsamningi milli Íslands og Færeyja.
Í upphafi þessa árs tóku gildi ný fiskveiðilög í Færeyjum þar sem lagt er bann við erlendri eignaraðild í færeyskum sjávarútvegsfyrirtækjum en áður máttu erlendir aðilar fara með allt að þriðjung hlutafjár. Samherji á 30% hlut í Framherja í Fuglafirði.
„Það kemur okkur á óvart að þeir skuli segja upp þessu samkomulagi,“ segir Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja. „Við erum vonsviknir með þessa niðurstöðu, en það eru sex ár til stefnu,“ segir Kristján en að óbreyttu mun Samherji þurfa að selja hlut sinn í Framherja fyrir 1. janúar 2025 þegar bannið verður að fullu gengið í gildi. Þá gerir hann ráð fyrir að selja þurfi hlut Samherja í frystigeymslunni Bergfrosti gangi áform Færeyinga eftir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.