Legsteini stolið úr Garðakirkjugarði

Ljóst þykir að það hafi verið mikið verk að lyfta …
Ljóst þykir að það hafi verið mikið verk að lyfta legsteininum, en hann vegur u.þ.b. 180 kíló. Ljósmynd/Aðsend

„Fólki er auðvitað brugðið og það er slegið. Það kannast enginn við svona mál. Kirkjugarðsverðirnir segja að steinar hafi orðið fyrir skemmdum í tengslum við heift og erfið fjölskyldumál, en það er ekkert svoleiðis í gangi hér. Þá hafa steinar verið skemmdir, en það er óþekkt að þeir séu fjarlægðir með öllu,“ segir Einar Atli Júlíusson, en fjölskylda hans vaknaði upp við vondan draum á mánudag þegar í ljós kom að legsteinn Lárusar Viðars Sveinbjörnssonar, bróður hans, hafði verið fjarlægður af leiði hans í Garðakirkjugarði á Álftanesi. Systir Einars Atla, Kristín Alda Júlíusdóttir, hefur auglýst eftir steininum á Facebook og á annað þúsund manns hafa deilt færslu hennar.

Líklegast er talið að tveir til þrír hafi þurft að …
Líklegast er talið að tveir til þrír hafi þurft að hjálpast að við að lyfta legsteini Lárusar, t.h. Ljósmynd/Aðsend

Einar segir það mikið verk að lyfta steininum, hann sé óþjáll og þyngstur neðst. 

„Þetta er rúmlega 180 kg steinn og slagar í Húsafellshellu. Það eru örfáir Íslendingar sem gætu tekið þetta upp sjálfir, þannig líklegast eru þetta einhverjir samverkamenn. Bæði kirkjugarðsvörður og þeir sem framleiddu steininn hafa lýst því að þetta sé tveggja til þriggja manna tak. Það þarf þetta marga eða þá búnað, trillu eða krana,” segir hann.

Ókunnugt um hvatann að baki stuldinum

Aðspurður segir hann að ekki liggi fyrir ástæðan fyrir því að steinninn var tekinn. Hann segir erfitt að ímynda sér hver hvatinn að baki hafi verið.

„Ef einhver gerir þetta sem skemmdarverk, þá er verulega erfitt að átta sig á því hver getur verið svo illa innrættur eða veikur að láta sér detta þetta í hug,“ segir hann. „Fyrst þegar við heyrðum af þessu vildi maður trúa því að það hefðu verið gerð einhver mistök,“ segir Einar, en aðspurður telur hann orðið nokkuð ljóst að um viljaverk hafi verið að ræða.

„Þegar menn panta flutninga á steini, þá er það yfirleitt í öllum tilvikum af því það kemur annar í staðinn. Það kannast enginn við að það hafi átt að flytja steininn,“ segir hann, en steinninn er rúmlega ársgamall, vel farinn og veglegur. Einar segir að hafi einhver ætlað að endurnýta steininn sé það mikið verk enda þyrfti að slípa hann allan í ljósi þess að grafið sé í hann.

Hafa boðist til að útbúa nýjan stein

Einar mun í dag leggja fram formlega kæru í málinu fyrir hönd fjölskyldunnar, en hann hefur verið í sambandi við lögregluna í Hafnarfirði vegna málsins. Einar segir að málið sé fjölskyldunni þungbært.

„Það eru líka ekki bara peningarnir sem skipta máli í þessu, heldur er verið að ráðast á grafreit. Það eru miklar tilfinningar í spilunum líka, sérstaklega á þessum tíma rétt fyrir jól. Ég vorkenni samt miklu meira þeim sem gerðu þetta heldur en okkur. Þetta fylgir þeim sem gerðu þetta um aldur og ævi,“ segir hann.

Einar segir að fjölskyldan hafi fengið mikla hjálp, bæði frá lögreglu og kirkjugarðsverði.

„Við höfum líka fengið góð ráð frá legsteinaframleiðendum og þá sérstaklega þeim sem seldu okkur steininn. Sigurður Hjalti hjá Granítsteinum gekk strax í málið og hjálpaði okkur í þessu. Þeir sögðu okkur það í morgun að ef steinninn fyndist ekki, þá myndu þeir útbúa annan stein fyrir okkur og til að setja niður í vor,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert