RÚV hafnar kröfum vegna Sjanghæ-frétta

Ríkisútvarpið hefur hafnað kröfu um afsökunarbeiðni og miskabætur vegna umfjöllunar …
Ríkisútvarpið hefur hafnað kröfu um afsökunarbeiðni og miskabætur vegna umfjöllunar um veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri í fyrra. mbl.is/Eggert

Ríkisútvarpið hefur hafnað kröfum Rositu YuFan Zhang, eiganda Sjanghæ-veitingastaðanna, um formlega afsökunarbeiðni og þriggja milljóna króna miskabótagreiðslu vegna fréttaflutnings fréttastofu RÚV af grunsemdum um vinnumansal á veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri á síðasta ári.

Þetta staðfestir Sævar Þór Jónsson lögmaður Rositu í samtali við mbl.is, en hann sendi formlega kröfugerð til RÚV vegna málsins síðastliðinn föstudag. Ríkisúvarpinu var gefinn frestur til hádegis í dag til þess að bregðast við með því að birta formlega afsökunarbeiðni vegna málsins á vef sínum. Líklega verður málið sótt áfram, að sögn lögmannsins.

„Þeir bara hafna kröfunni. Ég mun bera það undir umbjóðanda minn og að öllum líkindum munum við sækja málið áfram,“ segir Sævar Þór.

Sj­ang­hæ-málið vakti nokkra at­hygli og var fyr­ir­ferðamikið í fjöl­miðlum lands­ins fyrstu dag­ana í sept­em­ber fyr­ir rösku ári, eftir að RÚV greindi frá því á vef sínum og í beinni útsendingu í kvöldfréttum í sjónvarpi að stéttarfélagið Eining-Iðja væri að kanna hvort vinnumansal viðgengist á veitingastaðnum.

Í fyrstu frétt RÚV af mál­inu 30. ág­úst í fyrra sagði meðal ann­ars að grun­ur léki á að starfs­fólk veit­ingastaðar­ins fengi greidd­ar þrjá­tíu þúsund krón­ur á mánuði í laun og borðaði mat­araf­ganga á staðnum.

Samkvæmt athugun stéttarfélagsins á aðstæðum á vinnustaðnum reyndust kjör starfsmanna hinsvegar standast almenna kjarasamninga.

Veitingastaðurinn Sjanghæ á Akureyri.
Veitingastaðurinn Sjanghæ á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert