Icelandair var heimilt að setja flugfreyjum- og þjónum sem starfa hjá félaginu í hlutastarfi þá afarkosti að ráða sig annað hvort í fulla vinnu frá og með 1. janúar eða missa vinnuna annars, samkvæmt mati Félagsdóms. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við mbl.is að niðurstaðan sé eðlileg að hans mati. Félagið hefði aldrei farið í þessar aðgerðir ef það teldi þær stríða gegn ákvæðum kjarasamninga.
Vefur Fréttablaðsins greindi fyrst frá niðurstöðu Félagsdóms, sem kveðinn var upp í hádeginu. Í samtali við Fréttablaðið sagði Berglind Hafsteinsdóttir formaður Flugfreyjufélagsins að niðurstaða dómsins valdi félagsmönnum gífurlegum vonbrigðum. Bogi Nils segir þó að búast hefði átt við þessari niðurstöðu.
„Við hefðum aldrei farið í þetta ef að við hefðum talið að það sem við gerðum væri á skjön við kjarasamninga. Við vinnum alltaf innan kjarasamninga og við erum bara að horfa á alla þætti í okkar rekstri og hvar við getum bætt reksturinn. Þetta er ein pínulítil aðgerð í því og það sem er gleðilegt í þessu er að við getum boðið öllum þeim starfsmönnum sem þarna eiga í hlut 100% starf, á meðan við erum að sjá félög sem við erum að keppa við þurfa að grípa til uppsagna og þess háttar. Þetta eru mun þægilegri aðgerðir fyrir starfsfólkið en við erum að sjá á öðrum stöðum,“ segir Bogi Nils.
Bogi segir einungis tvo af þeim 118 starfsmönnum fyrirtækisins sem þessi ákvörðun tók til hafa ákveðið að hætta störfum, í stað þess að fara í fullt starf nú um áramót.
Fram hefur komið í máli formanns Flugfreyjufélagsins að flestir þeirra sem þáðu að auka starfshlutfall sitt hafi þó gert það með fyrirvara um lögmæti aðgerðanna.
Ákvörðunin var fordæmd í ályktun frá Flugfreyjufélaginu í lok september og aðgerðirnar sagðar „þvingunaraðgerðir“ sem gangi gegn umræðu í samfélaginu, bæði á meðal atvinnurekenda og launþega, um styttri vinnuviku og sveigjanlegan vinnutíma.
Dómur Félagsdóms hefur ekki enn verið gerður aðgengilegur á vef dómsins.