Sigurður Arnór Sigurðsson, nemandi við Fjölbrautarskólann í Ármúla fékk hæstu einkunn útskriftarnemenda á haustönn, 8,62, en í gær voru 102 nemendur brautskráðir frá skólanum. Þar að auki fékk Sigurður Arnór sérstök verðlaun fyrir góðan árangur í sálfræði, félagsfræði, þýsku og fyrir mætingu og ástundun. Mbl.is tók tal af Sigurði Arnóri sem kom af fjöllum þegar tilkynnt var að hann hefði dúxað.
„Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrr en ég var kominn upp á svið. Mig grunaði að ég fengi kannski einhverjar viðurkenningar, en að dúxa datt mér ekki í hug. Þetta var sannarlega óvænt ánægja,“ segir Sigurður Arnór sem útskrifaðist af félagsfræðabraut.
Aðspurður kveðst hann ekki viss um það hvort hann einbeiti sér að félagsfræðum í framtíðinni, en hann stefnir á að hefja nám í háskóla næsta haust og vinna þangað til. „Í júní verð ég svo búinn að ákveða mig. Þá rennur út fresturinn til að sækja um í háskóla,“ segir hann.
„Ég er áhugasamur um allt saman. Það er galli þegar maður er ekki búinn að velja framhaldsnám því það er svo mikið námsframboð. Þetta er hálfgert lúxusvandamál,“ segir hann, en fög á borð við tölvunarfræði eru einnig möguleiki hjá Sigurði Arnóri. „Ég er eiginlega opinn fyrir öllu,“ segir hann.
Aðspurður segir hann mikilvægast til að ná árangri í námi að mæta vel og skipuleggja sig.
„Fyrst og fremst er það góð mæting. Ég tók alltaf dagskólann og fjarnám með. Það var aldrei í boði að vinna með skólanum því þegar dagskólinn kláraðist þurfti ég að sinna fjarnáminu og huga að kærustunni eftir það! Það skiptir mestu máli að vera samviskusamur og skipulagður,“ segir hann.
Af þeim hundrað og tveimur nemendum sem brautskráðir voru í gær voru 71 stúdentar, 19 útskrifuðust með viðbótarnám til stúdentsprófs, fjórir af læknaritarabraut, fimm af heilbrigðisritarabraut, tíu heilsunuddarar, níu af námsbraut fyrir sótthreinsitækna. Af nýsköpunar- og listabraut útskrifuðust þrír nemendur.