„Við áttum fund með Sorpu í vikunni og erum að skoða alla möguleika. Við vonum það besta en búum okkur undir það versta,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri í Hrunamannahreppi og formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands (SOS).
Sorpa hefur tilkynnt að um áramótin verði lokað fyrir frekari móttöku sorps til urðunar frá sveitarfélögum á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands. Stefnt var að því að urðuninni yrði fundinn framtíðarstaður á Nessandi í Ölfusi en þær hugmyndir hafa verið slegnar af.
Meðal þeirra hugmynda sem hafa verið viðraðar fari svo að Sorpa standi við áform sín er að flytja sorp út til Danmerkur og Svíþjóðar til brennslu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.