PCC BakkiSilicon hf. hefur ákveðið að hækka laun starfsfólks um allt að 6%, eftir því hver starfsaldur og hæfni starfsmanna er, frá og með áramótum. Þetta er gert þrátt fyrir að ekki hafi tekist að klára samningaviðræður félagsins við stéttarfélög, en þær viðræður hafa staðið yfir undanfarnar vikur.
Það eru stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum, sem hafa átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um breytingar á sérkjarasamningi vegna PC. Rennur samningurinn út um áramótin.
Í tilkynningu frá Framsýn segir að leitast hafi verið eftir því að klára samninginn fyrir áramótin, en það hafi því miður ekki gengið eftir. Meðal annars er unnið að því að þróa frammistöðutengd bónuskerfi, sem ætlað er að bæta kjör í verksmiðjunni.
Til að koma til móts við kröfur stéttarfélaganna lýsti PCC því yfir að nýr samningur muni taka gildi frá og með áramótum þegar hann liggur fyrir. Til að liðka fyrir samningum ætlar félagið einnig að hækka starfsmenn um allt að 6% sem tengist starfsaldri og hæfni frá og með næstu áramótum þrátt fyrir að samningar hafi ekki náðst auk þess að tryggja öllum starfsmönnum 8% framleiðslukaupauka frá sama tíma, það er meðan unnið er að því að þróa nýtt kaupaukakerfi í janúar.
Í tilkynningunni er haft eftir Aðalsteini Árna Baldurssyni, formanni Framsýnar, að hann fagni útspili PCC. Verður viðræðum haldið áfram eftir áramótin og stefnt sé að því að klára þær með samningi í janúar.