„Við fylgjumst vel með en miðað við hvernig flensan hefur hegðað sér á undanförnum árum þá virðist hún vera tveimur vikum fyrr á ferðinni í ár og sækir í sig veðrið,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Í frétt í Morgunblaðinu í dag bætir hann við að það hafi komið kúfur fyrir nokkrum vikum og nú aftur í síðustu viku, en þá leituðu 39 sjúklingar með inflúensulík einkenni á heilsugæslur og bráðamóttökur.
Þórólfur segir niðurgangspestir á svipuðu róli og í fyrra. „Það er fjöldi veirusýkinga í gangi. RS-veirusýking kemur alltaf upp um þetta leyti. Flensan og RS berjast um yfirráðin. Þau toppa yfirleitt ekki á sama tíma því annað þeirra nær oftast að troða sér fram fyrir hitt,“ segir Þórólfur.