Fékk aðra hæstu einkunn frá upphafi

Melkorka fékk fjórðu hæstu lokaeinkunn sem gefin hefur verið í …
Melkorka fékk fjórðu hæstu lokaeinkunn sem gefin hefur verið í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Ljósmynd/Aðsend

Melkorka Gunborg Briansdóttir, nemandi við Menntaskólann í Hamrahlíð fékk hæstu lokaeinkunn allra nemenda sem brautskráðust frá skólanum á föstudag, 9,91, og er einkunnin önn­ur til fjórða hæsta ein­kunn í sögu skól­ans. Melkorka lauk 281 einingu á félagsfræðabraut og fékk þar að auki viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í félagsgreinum, sögu og þýsku. Var hún annar tveggja nýstúdenta sem flutti ávarp við útskriftarathöfnina.

„Ég stefndi ekkert sérstaklega að þessu, en þetta kom mér samt ekkert rosalega á óvart. Ég reyndar vissi ekki að einkunnin væri svona há,“ segir Melkorka Gunborg í samtali við mbl.is. 

Melkorka kveðst una sér best í bókmenntafræðum, íslensku og í fjölmiðlafræði. „Ég ætla að byrja í háskólanum næsta haust og þá mögulega í bókmenntafræði og fjölmiðlafræði,“ segir hún, en smjörþefinn fékk hún í nokkrum áföngum í MH. „Ég fór til dæmis í mjög skemmtilegan áfanga um Laxness og fjölmiðlafræði,“ segir hún.

Maður þarf að vera tilbúinn að vaka stundum fram á nótt

Utan skólans er Melkorka einnig önnum kafin, en hún leggur stund á klassískt píanónám við Tónlistarskóla Seltjarnarness og syngur einnig í Hamrahlíðarkórnum. 

Spurð hver lykillinn að árangrinum sé svarar Melkorka því að mikilvægast sé að sýna öllu áhuga sem maður tekur sér fyrir hendur. „Fyrst og fremst þarf maður að hafa gaman af því sem maður er að læra og síðan þarf auðvitað að leggja mikla vinnu í námið líka. Maður þarf að gera hlutina vel, vanda sig og vera tilbúinn að vaka stundum fram á nótt,“ segir hún og hlær.

„Við fáum sjálf að velja mikið af áföngum í MH sem er frábært og það eru alls konar skemmtilegir áfangar sem hægt er að taka. Stundum þurfti ég samt að leggja mig fram og reyna að finna áhugaverða fleti á efninu ef það var eitthvað sem kveikti ekki alveg í manni í fyrstu,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert