Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, segir Dag B. Eggertsson borgarstjóra enn njóta stuðnings Pírata í starfi. Hún segir flokk sinn þó eiga eftir að funda um stöðu hans í ljósi braggamálsins svonefnda í janúar næstkomandi. Þá mun koma í ljós hvort Píratar styðji Dag í embætti.
„Þetta er ekki gott mál og í raun óásættanlegt. Ég er algjörlega sammála niðurstöðum skýrslunnar en finnst eðlilegt að við sem flokkur rýnum sameiginlega í skýrsluna,“ segir hún og vísar í máli sínu til skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um kostnað vegna endurgerðar bragga við Nauthólsveg.
„Það verður haldinn fundur með grasrótinni í janúar þar sem skoðað verður hvaða formlegu ákvarðanir verða teknar í framhaldinu. Ég ber fullt traust til Dags og við styðjum hann þar til annað kemur í ljós,“ segir hún.
Nánar verður fjallað um braggamálið í Morgunblaðinu á morgun.