„Það sem mér finnst mikilvægast er að vera tilbúin til að prófa, að vera ekki hrædd við ný hráefni, ný brögð og nýjar aðferðir. Það er lykilatriði,“ segir Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir, sem ásamt kærasta sínum opnaði vefsíðuna grænkerar.is í nóvember þar sem þau deila uppskriftum af veganfæði, bæði hversdagslegu og nú fyrir jólin, hátíðlegu.
Þórdís Ólöf og Aron Gauti Sigurðarson, kærasti hennar, ætla að gæða sér á hnetusteik um jólin, en foreldrar Þórdísar Ólafar eru einnig að prófa sig áfram í grænkerafæðinu. „Reyndar verða systkini mín með lambahrygg, en meðlætið verður allt vegan,“ útskýrir Þórdís Ólöf.
Hún segir ekki óalgengt að kjötætur gæði sér jafnvel á hnetusteikinni sem meðlæti með jólamatnum. „Ég held að fólk sé að uppgötva að veganmatur sé meira en bara þurrt salat,“ segir hún glöð í bragði.
„Fólk er mjög fast í venjum yfir jólin. Við höfum alltaf verið með rósmarín- og timíankryddaðan lambahrygg með brúnni sósu á jólunum, svo við ákváðum að gera hnetusteik sem byggir á þessum kryddum og það eru allir meira en sáttir. Það er hægt að finna staðgengla og oft kemur það betur út.“
Þórdís Ólöf segir þau Aron hafa ákveðið að horfa á heimildamyndina Cowspiracy, sem fjallar um umhverfisáhrif landbúnaðar, fyrir um þremur árum síðan. „Umræðan um veganisma var búin að vera áberandi og ég hafði heyrt af þessari heimildamynd. Eitt kvöldið sagði ég við Aron að við skyldum láta verða af því að horfa á hana.“
„Ég hafði frestað því af því ég vissi að ég myndi vilja gera breytingar eftir að hafa horft á myndina og var ekki tilbúin til þess,“ segir Þórdís Ólöf. Hún hafði svo sannarlega rétt fyrir sér því bæði gerðust þau vegan um leið og myndinni lauk.
„Það má því segja að við höfum orðið vegan af umhverfisástæðum, en síðan fórum við að kynna okkur þetta betur og nú erum við fyrst og fremst fyrir dýrin. Við erum miklir dýravinir og það snertir okkur djúpt að vilja vernda þau.“
Þórdís Ólöf segir að þau hafi síðan lært um heilsufarslegan ávinning grænmetisfæðis, sem geti meðal annars unnið gegn sjúkdómum. Þau þurfi ekki að hafa áhyggjur af meltingartruflunum eða bjúgi yfir hátíðarnar eins og aðrir.
„Eftir að við urðum vegan hurfu öll slík vandamál. Við finnum að við verðum ekki þreytt eða þung í maga eftir máltíðirnar, við verðum södd en finnum ekki fyrir þessu hefðbundna sleni sem fylgir hátíðarmat,“ útskýrir Þórdís Ólöf. Henni þykir lítið mál að vera vegan um jólin.
„Mér hefur aldrei þótt vesen að vera vegan. Það eina erfiða eru viðbrögð aðstandenda og samfélagsins. Það truflar okkur ekki að vera með öðruvísi mat í veislum, en það er leiðinlegt þegar fólk er með fordóma.“
Aðspurð segir Þórdís Ólöf að foreldrar hennar hafi ákveðið að prófa veganisma í einn mánuð eftir að þau horfðu á heimildamyndina What the Health. Síðan þá hafi þau í rauninni ekki snúið aftur og Þórdís Ólöf segir það góða hugmynd að setja sér markmið um að prófa veganisma í ákveðinn tíma og sjá síðan til. Veganúar sé sem dæmi góð byrjun.
„Það er engin betri leið til að ná sér aðeins niður eftir jólaátið, að byrja nýtt ár með því að prófa þetta.“