Dömubindi og geitur eru vinsælar jólagjafir í ár

Geit er vinsælasta gjöfin hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.
Geit er vinsælasta gjöfin hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Í ár er langvinsælasta jólagjöfin fjölnota dömubindi fyrir stúlkur í Malaví,“ sagði Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið, en gjafabréf frá hjálparstofnunum eru nú sem fyrr vinsæll kostur sem jólagjöf til vina og vandafólks.

Kristín sagði töluverða aukningu vera í sölu gjafabréfanna frá því sem var árið á undan og sagðist þekkja mörg dæmi um að fólk kláraði öll jólagjafainnkaup á einu bretti með gjafabréfum frá Rauða krossinum.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, hafði svipaða sögu að segja og sagði sölu gjafabréfa enn vera í fullum gangi þegar Morgunblaðið náði tali af honum laust eftir hádegi í gær. „Geitin heldur sér á toppnum yfir vinsælustu gjafirnar, alveg hiklaust. Svo fylgja hænurnar fast á eftir,“ sagði Gísli en hjálparsamtökin hafa um árabil selt gjafabréf sem færir fátækri fjölskyldu í Úganda geit.

Hjá Unicef voru vinsælustu jólagjafirnar hlýr fatnaður og teppi sem send eru til barna víða um heim sagði Anna Margrét Hrólfsdóttir fjáröflunarstjóri í spjalli við Morgunblaðið. „Oft koma heilu fjölskyldurnar í heimsókn til okkar og kaupa allar jólagjafirnar.“ Margrét sagðist einnig merkja aukna sölu gjafabréfanna frá því sem hefur verið síðustu ár. teitur@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert