Gular viðvaranir í gildi

Vindaspáin kl. 13 í dag.
Vindaspáin kl. 13 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Að sögn Veðurstofu Íslands er gul viðvörun í gildi vegna veðurs á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi og Suðausturland.

Á Vestfjörðum er gert ráð fyrir suðvestan 15-23 m/s og snörpum vindhviðum við fjöll. Eru ferðalangar beðnir um að sýna aðgát.

Á Ströndum og Norðurlandi er einnig spáð suðvestan 15-23 m/s og snörpum vindhviðum við fjöll. Þar eru ferðalangar einnig beðnir um að fara varlega.

Þá er spáð suðvestan 15-23 m/s í Öræfum og austur að Höfn í Hornafirði. Sama uppi á teningnum þar; snarpar vindhviður við fjöll og ferðalangar beðnir um að sýna aðgát.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef veðurstofunnar, að nú sé lægð nærri Scoresby-sundi og hæðarhryggur suður af landi. Saman valdi þessi kerfi stífri suðvestanátt í dag.

„Gular viðvaranir eru í gildi vegna vinds á svæðum norðantil á landinu og á Suðausturlandi. Þó það sé skýjað um allt land, verður úrkoma lítil eða engin. Það er hlýtt í veðri miðað við árstíma, hiti á bilinu 3 til 10 stig, hlýjast á hnjúkaþey á Austfjörðum. 

Á morgun, jóladag, er ákveðin sunnanátt í kortunum með súld og rigningu, en lengst af hægari og þurrt á Norður- og Austurlandi. Áfram hlýtt í veðri,“ segir VÍ.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert