Komast ekki leiðar sinnar á aðfangadag

Slæm veðurskilyrði setja strik í reikning flugfarþega.
Slæm veðurskilyrði setja strik í reikning flugfarþega. Ljósmynd/Aðsend

Um 60 manns sem áttu bókað flug hjá Air Iceland Connect komast ekki leiðar sinnar í dag vegna aflýstra ferða til og frá Akureyri og Ísafirði.

„Það eru stormviðvaranir í gangi svo það verður ekkert flogið meira í dag. Það er ekkert flogið á jóladag svo næsta flug er bara á annan í jólum,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect. Gular viðvaranir eru í gildi vegna veðurs á Vest­fjörðum, Strönd­um og Norður­landi og Suðaust­ur­landi.

Árni bendir á að líklega hafi margir farþegar verið búnir að gera ráðstafanir vegna slæmra veðurskilyrða. „Það var nú örugglega eitthvað um það að farþegar væru búnir að færa sig til um daga því þetta var svona í spánni að það væri tvísýnt. Fólk hefur haft helgina, eða margir alla vega, til að ferðast þannig að einhverjir hafa örugglega fært sig til.“ 

Aðspurður segir Árni það setja strik í reikninginn fyrir marga að flugferðunum hafi verið aflýst en þrátt fyrir það hafi farþegarnir sýnt aðstæðunum skilning. „Það er auðvitað mjög óþægilegt fyrir fólk að geta ekki komist leiðar sinnar á þessum degi en við ráðum ekki við veðrið og fólk hefur skilning á því.“

Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.
Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Air Iceland Connect. mbl.is/Árni Sæberg

Flugfélagið Ernir hefur aflýst flugferðum til Bíldudals, Hafnar í Hornafirði og Húsavíkur. Fyrr í dag hafði Ernir einungis aflýst ferðum til Húsavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu eru flestir farþegar þess með varaáætlun til þess að komast leiðar sinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert