Þeir eru fáir jarðarbúar sem eytt hafa áramótum um borð í skipi við Suðurskautslandið en það er einmitt það sem Hafdís Hanna Ægisdóttir hyggst gera. Það styttist í brottför og spennan eykst en aðdragandinn hefur verið langur. Hafdís Hanna, sem er forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, er líffræðingur í grunninn en tók síðar doktorspróf í plöntuvistfræði.
„Í meistaranáminu var ég m.a. að skoða hvernig háfjalla- og heimskautaplöntur svara snöggum umhverfisbreytingum og í doktorsnáminu var ég að skoða háfjallaplöntur í Ölpunum. Þegar ég kom heim úr námi erlendis sótti ég um starf hjá Landgræðsluskólanum því það sameinaði svo margt sem ég hafði áhuga á. Þar fór ég yfir í meiri stjórnun í stað rannsókna,“ segir Hafdís Hanna og bætir við að námið tengi hana óneitanlega við Suðurskautslandið.
Blaðamaður sér ekki fyrir sér plöntulíf á suðurpólnum en Hafdís Hanna er með svar á reiðum höndum.
„Það eru tvær tegundir blómplantna á Suðurskautslandinu, þar á meðal ein grastegund. Svo finnast einnig þónokkrar mosategundir þar. En þetta er vissulega ekki fjölskrúðugt plöntulíf,“ segir hún en nefnir að þarna sé heilmikið dýralíf.
„Á Suðurskautsskaganum eru mörgæsir og margar aðrar tegundir sjófugla, hvalir og selir. Flest dýranna eru sumargestir og það er sumar núna á Suðurskautslandinu,“ segir Hafdís Hanna og segist hlakka mikið til að fylgjast með dýrunum. Hún býður blaðamanni upp á rjúkandi heitt latte sem er vel þegið á óveðursmorgni. Við höfum það notalegt og á meðan hvín í vindi og rigning lemur rúðurnar ræðum við starf hennar og fyrirhugaða ævintýraferð til Suðurskautslandsins.
„Það eru fjórir skólar í tengslum við Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi, Landgræðsluskólinn, sem ég stýri, Sjávarútvegsskólinn, Jarðhitaskólinn og Jafnréttisskólinn. Þessir skólar sérhæfa sig allir í að byggja upp hæfni einstaklinga og stofnana í þróunarlöndum og erum við styrkt af íslenska ríkinu í gegnum alþjóðlega þróunarsamvinnu. Landgræðsluskólinn er hýstur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við Landgræðslu ríkisins. Við bjóðum hingað fólki frá þróunarlöndum í sex mánaða nám, frá mars til september. Nemendurnir eru allir starfandi sérfræðingar í sínum heimalöndum. Þeir vinna hjá þarlendum stofnunum, t.d. háskólum, rannsóknarstofnunum, frjálsum félagasamtökum og ráðuneytum, ásamt öðrum opinberum aðilum. Þetta er allt fólk með háskólagráður sem fær leyfi frá sinni vinnu til að koma til Íslands og afla sér þekkingar í landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu,“ segir hún.
„Svo fara þau aftur heim og nýta þekkinguna. Við erum að byggja upp færni einstaklinga og stofnana til að takast á við þessar stóru áskoranir sem blasa við í dag. Í okkar samstarfslöndum í Afríku og Mið-Asíu tengist landeyðing og ósjálfbær landnýting fátækt og fæðuframboði. Það er ekki hægt að rækta jafn mikinn mat á landi sem hefur blásið upp og misst frjósemi sína og á landi í góðu ástandi. Svo tengist þetta líka loftslagsmálum mjög mikið,“ segir Hafdís Hanna og segir að Ísland hafi sérstöðu hvað varðar þekkingu á þessu sviði.
„Við höfum yfir hundrað ára reynslu hérlendis í landgræðslu. Landgræðslan, sem hét reyndar Sandgræðslan í upphafi, var stofnuð 1907. Þá var ástand landsins afar slæmt. Á Rangárvöllum þurftu bændur t.a.m. að yfirgefa jarðir sínar vegna sandfoks. Þá voru sett lög og Sandgræðslan stofnuð. Við erum ennþá að læra og eigum langt í land við að bæta landgæði hérlendis en við höfum öðlast góða reynslu og þekkingu, bæði af því sem vel hefur farið og því sem betur mætti fara,“ segir Hafdís Hanna.
Hún segir þau hjá Landgræðsluskólanum einnig læra heilmikið af erlendu nemunum og þau hvert af öðru. „Þetta er heilmikil áskorun fyrir þau að vera hér í sex mánuði og þetta er í raun leiðtogaþjálfun í leiðinni. Þau þurfa að læra að koma fram og tileinka sér gagnrýna hugsun,“ segir hún.
„Svo leggjum við mikla áherslu á kynjajafnrétti og erum með sérstaka jafnréttisstefnu. Við bjóðum alltaf jafn mörgum konum og körlum hingað. Það skiptir miklu máli einkum vegna þess að það eru oft konur sem vinna við að rækta landið, t.a.m víða í Afríku,“ segir hún.
„Þessi sex mánaða námskeið eru grunnurinn í okkar starfi en við höldum líka 1-2 vikna námskeið erlendis og getum þá þjálfað fleiri,“ segir hún.
Hafdís Hanna segir að von sé á tuttugu manns á næsta ári í sex mánaða nám Landgræðsluskólans.
„Við viljum svo að þau beri út boðskapinn þegar þau koma heim til sín. Við fylgjum okkar nemum vel eftir og erum í mjög góðu sambandi við þau eftir að þau fara héðan,“ segir hún og bætir við að starfsfólk skólans heimsæki oft fyrrverandi nemendur í vinnuferðum til samstarfslanda.
„Það er mjög gaman að sjá hvað þau hafa eflst mikið, komið af stað verkefnum sjálf, fengið styrki til að græða upp landið og hafa jafnvel haft áhrif á stjórnvöld varðandi stefnumótun í landgræðslu. Við höfum séð mjög margt spennandi og gott. Við sjáum árangur, svo sannarlega.“
„Ég frétti af þessu fyrir nokkru frá prófessor sem ég hitti á fundi erlendis og sá að hún var að fara til Suðurskautslandsins og varð strax þá mjög spennt. Það hefur alltaf verið draumur hjá mér að fara þangað, þetta er í raun barnæskudraumur. Ég fann um daginn gamla ritgerð sem ég skrifaði í tíunda bekk. Hún er um mörgæsir,“ segir Hafdís Hanna og hlær.
Blaðamaður fær að glugga í þessari gömlu ritgerð, hún er skrifuð með fallegri skrift sextán ára stúlku. Aftast í ritgerðinni má sjá einkunnina 10,0. Hvorki meira né minna. „Þetta er þannig gamall draumur og ég hef alltaf haft ævintýraþörf og verið spennt bæði fyrir náttúru og menningu. Og þar að auki verða þarna áttatíu konur í vísindum og hægt er að auka tengslanet sitt við konur úti um allan heim. Þetta tengir svo margt; þarna er leiðtogaþjálfun líka. Og loftslagsmálin eru í brennidepli, þannig að þetta er fullkomið fyrir mig,“ segir hún.
„Homeward Bound er stofnað af ástralskri konu sem er bæði athafnakona og leiðtogaþjálfi. Hún átti sér þennan draum og dreymdi þetta eina nóttina þar sem hún sá fyrir sér Suðurskautslandið. Hún setti á stofn þetta prógramm þar sem hún vill þjálfa þúsund konur á tíu árum,“ útskýrir Hafdís Hanna en hún er að fara í þriðju ferðina af tíu.
„Þetta eru allt konur með vísindabakgrunn, í vistfræði, líffræði, stjörnufræði, verkfræði, læknisfræði, jarðfræði. Sumar eru að vinna í rannsóknum, aðrar í menntun eða stefnumótum,“ segir Hafdís Hanna og bætir við að konurnar séu á öllum aldri.
„Það er mikil reynsla í þessum hópi. Ég sótti um þetta en það var heilmikið umsóknarferli. Það var töluverð samkeppni,“ segir hún.
„Svo var það á afmælinu mínu 20. október í fyrra að ég var með erindi á umhverfisþingi. Þennan morgun fékk ég tölvupóst um að ég hefði verið tekin inn en þennan sama dag var gestafyrirlesari á umhverfisþingi kona sem heitir Monica Araya frá Kosta Ríka sem hafði farið í fyrsta leiðangurinn, sem var skemmtileg tilviljun,“ segir hún.
„Við höfum verið að vinna í þriggja manna hópum sem svo rótera svo maður kynnist fleirum og svo eigum við að vera með kynningu um borð í skipinu. Við höldum líka dálítið saman við fimmtán sem eru frá Evrópu,“ segir hún.
Dvalið verður um borð í skipi í þrjár vikur og siglt frá Argentínu til Suðurskautsskagans. Stíf dagskrá er alla daga.
„Kennarateymið um borð er mjög flott og langar mig sérstaklega að nefna Christinu Figueres sem starfaði sem aðalframkvæmdastýra Loftslagsamnings Sameinuðu þjóðanna og var fremst í flokki þegar Parísarsamkomulagið var samþykkt árið 2015,“ segir hún.
„Það er verið að búa til samfélag kvenna sem geta með sinni reynslu og þekkingu haft áhrif á stefnumótun, bæði heima fyrir og á alþjóðavísu. Sérstaklega í sambandi við loftslagsmálin. Við sem erum að fara núna erum í miklu sambandi og þetta eru ótrúlegar konur margar hverjar,“ segir hún.
„Ég er eiginlega mest spennt fyrir þessu tengslaneti, þetta verður svo gott stuðningsnet. Mér finnst eins og ég sé búin að finna minn hóp því maður áttar sig á því að við erum allar að takast á við það sama. Maður finnur traust í hópnum.“
„Þetta er einn af síðustu stöðum jarðarinnar þar sem áhrifa mannsins hefur hingað til gætt lítið. Nú sjáum við hins vegar örar breytingar vegna loftslagsbreytinga og við vitum að ef ísinn á Suðurskautslandinu bráðnar getur það hækkað yfirborð sjávar töluvert á heimsvísu. Suðurskautslandið er líka mjög einangraður staður þannig að það myndast mikil samkennd, við erum saman á skipi í þrjár vikur og komumst ekkert annað,“ segir hún og hlær.
„Svo er þetta líka svolítið táknrænt; lengi vel voru leiðangrar til Suðurskautslandsins bannaðir konum. Á öldum áður voru það bara karlar sem þangað fóru,“ segir hún.
Hvað á að gera á gamlárskvöld?
„Góð spurning! Við förum um borð í skipið á gamlársdag og leggjum í hann um kvöldmatarleytið. Það verður örugglega fagnað og við ætlum allar að koma með eina litla gjöf og gefa hver annarri,“ segir Hafdís Hanna.
Oft er slæmt í sjóinn á siglingaleiðinni, að sögn Hafdísar Hönnu.
„Leiðin heitir Drake Passage og er á milli Argentínu og Suðurskautslandsins. Það tekur um einn eða einn og hálfan sólarhring að komast þarna yfir. Þá er mælt með að liggja í koju og taka sjóveikistöflu en þegar komið er að Suðurskautslandinu siglum við lygnan sjó,“ segir Hafdís Hanna.
Eftirvæntingin leynir sér ekki. Bæði fyrir fræðastarfinu og eins dýralífinu.
„Ég er mjög spennt að sjá mörgæsirnar, þetta hafa alltaf verið uppáhaldsdýrin mín,“ segir Hafdís Hanna og segist vera tilbúin í ævintýrið; nú sé bara eftir að halda jól með fjölskyldunni og pakka ullarsokkunum í tösku!
Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með leiðangrinum á samfélagsmiðlum. Sjálf heldur Hafdís Hanna úti sérstakri síðu á Facebook sem heitir einfaldlega Hafdís Hanna á Suðurskautslandinu. Einnig er hægt að fylgjast með verkefninu, @homewardboundprojects, bæði á Facebook og Instagram.