Pólsk jól á Íslandi

Hjónin Bozena og Michal eru hér með son sinn Filip …
Hjónin Bozena og Michal eru hér með son sinn Filip á milli sín. Þau blanda gjarnan saman pólskum og íslenskum hefðum á jólunum en þau hafa búið hér í 21 ár. mbl.is/Ásdís
Pólverjar eru fjölmennir á Íslandi og margir þeirra halda í pólskar hefðir á jólunum. Hjónin Michal og Bozena Józefik gefa lesendum innsýn í pólsk jól en villisveppasúpa og fiskur er ómissandi á aðfangadagskvöld. 
Hjónin Michal og Bozena Józefik eru frá Póllandi en hafi búið hálfa ævina á Íslandi, í rúma tvo áratugi. Þau búa á Flúðum ásamt þremur börnum sínum og foreldrum Michals og reka veitingastaðinn Mika í Reykholti í Biskupstungum. Aðspurð hvernig þau hafi endað í veitingabransanum svarar Bozena að tilviljunin ein hafi ráðið því. Þau byrjuðu í konfektgerð og seldu afraksturinn á jólabasar í prjónabúð sem þá var þar.

„Þetta var árið 2008 og gekk þetta svona í þrjú ár en þetta jókst ár frá ári. Mika fór á námskeið til Belgíu að læra að gera konfekt og um daginn vorum við í Chicago á námskeiði að læra meira. Svo opnuðum við veitingastaðinn árið 2011,“ segir hún og síðan þá hefur verið nóg að gera á Mika.

„Við bjóðum hér upp á humar, salöt, pítsur, súpur, pasta og svo konfektið sem er allt handgert. Allt úr ekta súkkulaði,“ segir Bozena og nær í smakk fyrir blaðamann.

Á meðan konfektið rennur ljúflega niður er eiginmaðurinn í óða önn í eldhúsinu að matreiða pólska jólarétti sem lesendur geta spreytt sig á yfir hátíðirnar.

Jólasiðir í Póllandi

Bozena segir að ekkert kjöt sé á borðum Pólverja á aðfangadagskvöld, a.m.k. ekki fyrr en eftir miðnætti. 

„Við erum alltaf með villisveppasúpu með heimalöguðu pasta. Svo á alltaf að vera fiskur,“ segir hún.

„Í gamla daga áttu alltaf að vera tólf réttir á borðinu, jafn margir postulunum. Veisluborðið var blanda af fiskréttum og grænmeti. En kirkjan breytti þessu fyrir 10-15 árum og nú þarf fólk ekki að vera með svona marga rétti. Nú er þetta frjálst,“ segir Michal.

Þau segja margt líkt með jólahefðum á Íslandi og í Póllandi. Aðfangadagur er haldin hátíðlegur með góðum mat og jólapökkum og fara Pólverjar gjarnan í miðnæturmessu.

„Svo þegar fólk kemur heim úr messu má byrja að borða kjöt. En allan aðfangadag er fastað fram að kvöldmat,“ segir Michal.

Þau segjast í dag blanda saman pólskum og íslenskum hefðum á jólunum, þótt pólski maturinn sé í fyrirrúmi.

„Það er amman á heimilinu sem eldar að mestu. Mamma heldur í þessar hefðir og eldar fyrir okkur. En svo reynum við að hafa þetta svolítið frjálst. Það eina sem er alveg fast er villisveppasúpan og fiskur, það er alltaf,“ segir Michal.

Sinn er siðurinn í landi hverju og í Póllandi er aðeins einn jólasveinn, ekki þrettán.

„Við eigum bara einn jólasvein og hann kemur 6. desember. Þá fá allir krakkar einhverja smá gjöf en svo fleiri á jólunum,“ segir Bozena.

Þau hjón kveðja blaðamann og leysa hann út með eðalkonfekti sem geymt verður til jóla.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert