Pólsk jól á Íslandi

Hjónin Bozena og Michal eru hér með son sinn Filip …
Hjónin Bozena og Michal eru hér með son sinn Filip á milli sín. Þau blanda gjarnan saman pólskum og íslenskum hefðum á jólunum en þau hafa búið hér í 21 ár. mbl.is/Ásdís
Pól­verj­ar eru fjöl­menn­ir á Íslandi og marg­ir þeirra halda í pólsk­ar hefðir á jól­un­um. Hjón­in Michal og Bozena Józefik gefa les­end­um inn­sýn í pólsk jól en vill­i­svepp­asúpa og fisk­ur er ómiss­andi á aðfanga­dags­kvöld. 
Hjón­in Michal og Bozena Józefik eru frá Póllandi en hafi búið hálfa æv­ina á Íslandi, í rúma tvo ára­tugi. Þau búa á Flúðum ásamt þrem­ur börn­um sín­um og for­eldr­um Michals og reka veit­ingastaðinn Mika í Reyk­holti í Bisk­upstung­um. Aðspurð hvernig þau hafi endað í veit­inga­brans­an­um svar­ar Bozena að til­vilj­un­in ein hafi ráðið því. Þau byrjuðu í kon­fekt­gerð og seldu afrakst­ur­inn á jóla­bas­ar í prjóna­búð sem þá var þar.

„Þetta var árið 2008 og gekk þetta svona í þrjú ár en þetta jókst ár frá ári. Mika fór á nám­skeið til Belg­íu að læra að gera kon­fekt og um dag­inn vor­um við í Chicago á nám­skeiði að læra meira. Svo opnuðum við veit­ingastaðinn árið 2011,“ seg­ir hún og síðan þá hef­ur verið nóg að gera á Mika.

„Við bjóðum hér upp á hum­ar, salöt, pítsur, súp­ur, pasta og svo kon­fektið sem er allt hand­gert. Allt úr ekta súkkulaði,“ seg­ir Bozena og nær í smakk fyr­ir blaðamann.

Á meðan kon­fektið renn­ur ljúf­lega niður er eig­inmaður­inn í óða önn í eld­hús­inu að mat­reiða pólska jóla­rétti sem les­end­ur geta spreytt sig á yfir hátíðirn­ar.

Jólasiðir í Póllandi

Bozena seg­ir að ekk­ert kjöt sé á borðum Pól­verja á aðfanga­dags­kvöld, a.m.k. ekki fyrr en eft­ir miðnætti. 

„Við erum alltaf með vill­i­svepp­asúpu með heima­löguðu pasta. Svo á alltaf að vera fisk­ur,“ seg­ir hún.

„Í gamla daga áttu alltaf að vera tólf rétt­ir á borðinu, jafn marg­ir postul­un­um. Veislu­borðið var blanda af fisk­rétt­um og græn­meti. En kirkj­an breytti þessu fyr­ir 10-15 árum og nú þarf fólk ekki að vera með svona marga rétti. Nú er þetta frjálst,“ seg­ir Michal.

Þau segja margt líkt með jóla­hefðum á Íslandi og í Póllandi. Aðfanga­dag­ur er hald­in hátíðleg­ur með góðum mat og jólapökk­um og fara Pól­verj­ar gjarn­an í miðnæt­ur­messu.

„Svo þegar fólk kem­ur heim úr messu má byrja að borða kjöt. En all­an aðfanga­dag er fastað fram að kvöld­mat,“ seg­ir Michal.

Þau segj­ast í dag blanda sam­an pólsk­um og ís­lensk­um hefðum á jól­un­um, þótt pólski mat­ur­inn sé í fyr­ir­rúmi.

„Það er amm­an á heim­il­inu sem eld­ar að mestu. Mamma held­ur í þess­ar hefðir og eld­ar fyr­ir okk­ur. En svo reyn­um við að hafa þetta svo­lítið frjálst. Það eina sem er al­veg fast er vill­i­svepp­asúp­an og fisk­ur, það er alltaf,“ seg­ir Michal.

Sinn er siður­inn í landi hverju og í Póllandi er aðeins einn jóla­sveinn, ekki þrett­án.

„Við eig­um bara einn jóla­svein og hann kem­ur 6. des­em­ber. Þá fá all­ir krakk­ar ein­hverja smá gjöf en svo fleiri á jól­un­um,“ seg­ir Bozena.

Þau hjón kveðja blaðamann og leysa hann út með eðal­kon­fekti sem geymt verður til jóla.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert