Þrátt fyrir niðamyrkur gengur lífið sinn vanagang hjá nágrönnum Íslendinga norður á Svalbarða. Þeirra á meðal eru þau Kristján Breiðfjörð Svavarsson, heimavinnandi arkitekt, Sólveig Anna Þorvaldsdóttir, eini tannlæknirinn í bænum, og synirnir Þorvaldur Kári, níu ára, og Bjarki Rafn, þriggja ára.
Þau eru meðal um tíu Íslendinga sem í vetur dvelja í Longyearbyen og í samtali við Morgunblaðið segir Kristján að talsvert sé um Íslendinga í bænum í lengri eða skemmri tíma. Þeir tengist einkum háskólaútibúinu sem þar er rekið, ýmist sem kennarar eða nemendur. Hann segir að Íslendingarnir hafi talsverð samskipti og hafi fyrr í mánuðinum hist við laufabrauðsgerð.
Ekki hefur birt af degi frá 11. nóvember og þess er ekki að vænta fyrr en 30. janúar að heimskautanóttin gefi eftir. Geisla sólarinnar er að vænta 8. mars og við sólarkomuna safnast íbúar í Longyearbyen saman á tröppum sjúkrahússins og brosa framan í heiminn. Mánuði síðar verður orðið bjart allan sólarhringinn á Svalbarða og íbúar geta notið miðnætursólarinnar fram í ágúst.
Þessa dagana sér ekki mun á birtunni/myrkrinu á hádegi og miðnætti og Kristján var með öll ljós kveikt þegar rætt var við hann um miðjan fimmtudag. Í stað skötunnar á Þorláksmessu segist Kristján hugsanlega bragða á lútfiski með heimafólki í fyrsta skipti.
Jólaskipulag var ekki ákveðið enda hafa miklar annir verið hjá Kristjáni og Sólveigu undanfarið. Hugsanlega verður reyktur svínakambur í hátíðamatinn eða önd eða kalkúnn. Þegar allt kemur til alls verður það úrvalið í bæjarbúðinni sem ræður mestu um það sem verður á borðum. Hins vegar var íslenskt sælgæti komið í skálar á heimilinu.
„Ef það verður gott vélsleðafæri væri gaman að fara í fjallakofa sem hægt er að leigja og prófa að gista í algjöru myrkri. Annars höfum við öll mjög gott af því að slappa af um jólin á náttfötunum,“ segir Kristján.
Þau fluttu frá Íslandi 2009 í kjölfar efnahagshrunsins og ætluðu sér að vera í Noregi í eitt ár. Fyrst bjuggu þau í Förde í fjögur ár, en fluttu þá til Tromsö og eftir önnur fjögur ár þar fluttu þau norður til Svalbarða fyrir 14 mánuðum.
Kristján segir gott að eiga heima á Svalbarða, samfélagið sé þægilegt og allt sé til alls fyrir fjölskylduna sem og fjölmarga ferðamenn sem koma til eyjunnar. Skóli, sjúkrahús, menning, íþróttir, bíó, hótel, kaffihús og barir, að ógleymdum þeim möguleikum sem snjórinn og sjórinn bjóða upp á.
Sjálfur segist hann gjarnan hlaupa um sjö kílómetra bæjarhringinn á stuttbuxum 2-3 sinnum í viku svo fremi sem vindkælingin sé ekki mikil. 10-15 stiga frost og hægviðri sé ekki tiltökumál, en það er einmitt veðurspáin fram yfir jól.
Helstu farartækin á eyjunni eru vélsleðar, en vegakerfið er samtals 45 kílómetrar og aðeins er götulýsing inni í bænum. Kristján segir að dýrt sé að kaupa ferskvöru á Svalbarða, en á móti komi að talsverð fríðindi séu í skattgreiðslum.
Um 2.200 manns búa í Longyearbyen, 4-500 Rússar í Barentsburg og nokkrar vísinda- og veðurstöðvar eru reknar á Svalbarða. Heldur fleiri hvítabirnir eru þar heldur en mannfólkið og sá Kristján einn slíkan á förnum vegi síðasta vor.
„Hann hafði komið meðfram ströndinni og stóð um 900 metra frá húsinu okkar í austurjaðri bæjarins,“ segir Kristján. „Hann var kominn óþægilega nálægt þegar þyrla sýslumanns kom á vettvang og menn gátu stuggað við honum. Ef við erum ein á ferð og sjáum ísbjörn er fyrsta boðorð að koma sér í burtu, þetta er jú heimasvæði bjarnanna. Ef það er ekki í boði þá er að skjóta hvellhettu eða neyðarblysi til að hræða dýrið. Ef ekkert af þessu dugar eru menn yfirleitt með riffil.“
Kristján er landslagsarkitekt og BA í arkitektúr og hefur verið að koma upp starfsemi undir eigin hatti, Svavarsson Design Lab, auk verkefna í lausamennsku fyrir stofuna sem hann vann hjá í Tromsö. Hann sinnir ýmsum verkefnum og segist hafa gaman af alls kyns hönnun.
Nýlega skilaði hann ásamt íslenskum kollega sínum hugmynd að áningarstað á Bolafjalli við Bolungarvík, en þau voru meðal þriggja teyma sem boðið var að gera tillögu. Þá bar hann sigur úr býtum í samkeppni á vegum Síldarvinnslunnar um minningarreit í Neskaupstað. Fyrr í haust varð hann ásamt félögum sínum í þriðja sæti í samkeppni Landsvirkjunar um listaverk við Þeistareyki.